desember 15, 2004

Það rignir eins og hellt sé úr mörgum mörgum fötum (svona regnfötum sko...) og þá finnst mér gaman. Þegar rignir þá getur sólin nefnilega ekki skinið og þá ná skýin niður í húsþök og yfir öllu hvílir skammdegisdrungi. Og ég fer í jólaskap. Ég get nú heldur ekki annað því í gær kom til mín kassi fullur af kræsingum og nú á ég hamborgarhrygg, hangikjöt og laufabrauð og meira að segja eina maltdós í ísskápnum. Og fuuuuuuullt af jóladiskum. Takk elsku mamma og pabbi. Þið eruð sko langbest í heimi.

En talandi um regnföt, ég ætti kannski að bjarga leppunum af þvottasnúrunni og henda þeim í vindingu í þvottavélinni áður en allt fer bókstaflega á kaf... Ég kem rétt strax aftur.

Verkefni dagsins í dag er að baka spesíur, piparkökur og vanilluhringi. Hjónasælu og súkkulaðibitaköku (og kannski marmaraköku). Og brjóta saman þvottafjallið sem hefur tekið sér bólfestu í stofunni minni. Af hverju hefur aldrei verið fundin upp þvottasamanbrjótur? Ég myndi sko vera til í að borga stórar fjárhæðir fyrir svoleiðis maskínu.

Af krílinu er það helst að frétta að því finnst gaman að sparka í móður sína og hamast við það látlaust allan daginn alla daga. Lætin hófust upp úr miðjum nóvember. Þetta er alveg ótrúleg tilfinning - Bara með því skemmtilegra sem ég veit. Krílið er þó ekki eins spennt fyrir því að sparka í föður sinn en lét þó til leiðast einu sinni og (7. des) . Síðasta sónarskoðunin er núna á föstudaginn en þá verð ég búin með akkúrat 22 vikur. Ég er að vona að myndirnar sem við fáum verði skýrar og góðar svo ég geti látið skanna þær inn og sett á netið. Það stendur einnig til að koma fyrstu bumbumynd á netið innan tíðar. Annars er bumban bara lítil og pen ennþá en stækkar samt jafnt og þétt. Mittismálið er orðið rúmir 90 cm.

Bless í bili og kveðja frá Jólatani,

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim