nóvember 20, 2006

Jamm og já. Mánuður síðan síðast. Hvað er nú að frétta héðan. Alls kyns og bara allt gott.

Byrjum á barnafréttum.

Þór: Hann er víst orðinn þriggja mánaða litla skinnið og er voða duglegur. Hann hjalar og brosir og hlær hástöfum þegar honum finnst tilefni til. Hann er nokkrum sinnum búinn að velta sér af maganum yfir á bakið og snýr sér í allar áttir og veltir sér á báðar hliðar þegar hann er á bakinu. Hann kann alveg að teygja sig í dótið sitt og halda á því. Honum finnst líka voða mikið sport núna að borða allt sem hann krækir fingrunum í. Nú ef hann krækir ekki í neitt borðar hann bara á sér hendurnar.

Hann er algjör draumur orðinn á næturnar. Sefur yfirleitt bara í 10 - 12 tíma og vaknar að meðaltali tvisvar til að drekka. Honum virðist líka yfirleitt líða vel á daginn. Sefur vel, borðar vel og er duglegur að leika sér og horfa á dótið sitt. Það er helst seinni part dags og á kvöldin sem hann er órólegur og grætur mikið. Hann er ábyggilega með eitthvað bakflæði og svo er þetta mynstur orðið grunsamlega kveisulegt þar sem hann er búinn að gráta á sama tíma á hverju kvöldi núna í viku og voða erfitt að hugga hann. Vonum samt það besta.

Heiða: Algjör gormur. Elskar að hoppa og dansa og hlusta á tónlist. Hún er byrjuð að gera hreyfingar með þegar maður syngur lög eins og höfuð herðar..., upp á grænum, grænum og fleiri lög. Alltaf bætist við orðaforðann og greinilegt að hún reynir að segja miklu meira en maður skilur. Ég held líka að hún sé búin að læra fyrsta enska orðið sitt því í gærkvöldi kallaði hún pabba sinn alltaf deddí eins og enska amma og afi gera (þau voru í mat í gær).

Heiða er líka orðin dugleg að leika sér í hlutverkaleik og er farin að gera hluti eins og að gefa böngsum og dúkkum að borða og skipta um bleyju á þeim. Svo býr hún um þau og ruggar þeim í stólnum hans Þórs. Hún leikur mikið með stubbalandið sitt og raðar þeim í kring um borðið og lætur þá leika sér. Svo setur hún þá alla í rúmið og breiðir yfir þá og sussar svo á alla viðstadda og hvíslar eitthvað sem enginn skilur, sjálfsagt að biðja okkur um að hafa hljótt svo þeir vakni ekki. Henni finnst líka voða gaman að lita og púsla og er flink í því en best er að fá að sitja í mömmu fangi og lesa og lesa og lesa. Þannig væri hægt að eyða heilum degi.

Það er mikið sport að fá að hjálpa til og hún hjálpar mér að leggja á borðið og taka úr þvottavél og þurrkara. Um daginn setti hún líka alveg sjálf í þvottavélina það sem ég rétti henni. Hún er alveg búin að læra hvernig maður gerir svo þegar búið er að setja í þvottavélina. Maður dregur út sápuhólfið. Síðan setur mamma þvottaefnið í. Næst lokar maður sápuhólfinu, mamma stillir á rétt prógram og svo ýtir maður á takkann. Svo hrekkur maður við þegar þvottavélin fer í gang.

Heiðan mín er mjög skapmikil og ákveðin og henni líkar sko ekki þegar hún er skömmuð. Hún á líka oft erfitt með að sætta sig við það þegar hlutirnir eru ekki eftir hennar höfði en hún er sem betur fer yfirleitt fljót að jafna sig og skipta skapi. Verður vonandi ekki langrækin.

Já, ég gæti sjálfsagt skrifað endalaust um þau greyin enda eru þau best í heimi en ætli það sé ekki best að láta staðar numið hér.

Við hjónaleysin: Erum kát og glöð og líður vel í Englandi. Það er merkilegt að við hugsum nánast aldrei til Frakklands og ef við hugsum þangað er það af praktískum ástæðum eins og tryggingin á franska bílnum eða málaferlin vegna hússins. Jonathan vinnur og vinnur og líkar bara vel. Spilar pool á ölstofum einu sinni í viku og er að hugsa um að spila með pool-liði sem bareigandinn á næsta bar er að hugsa um að stofna. Ég er nú mest í því að hugsa um börn og bú en hef líka verið ansi upptekin við að kynnast nýju fólki undanfarið. Það er svo ótrúlega gaman að eiga loksins vini sem maður þarf ekki að ferðast langar vegalengdir til að hitta.

Við erum að hugsa um að flytja bráðum þó svo að við elskum húsið sem við búum í. Þar sem þetta er eiginlega úti í sveit þá er ekkert hægt að fara út úr húsi nema hlaða börnum og fylgihlutum öllu í bílinn og keyra á gönguvæna staði. Vegirnir hér í kring eru allir einbreiðir og engar gangstéttir í boði. Því hættir maður lífi og limum ef maður vogar sér að ganga þar. Við erum því að hugsa um að flytja inn í einhvern af nágrannabæjunum þar sem hægt er að fara í gönguferð án þess að þurfa fyrst að fara í ökuferð.

Af svarta hundskvikindinu er það að frétta að hann er fluttur (í bili að minnsta kosti). Hann hef ég hvorki heyrt né séð í langan tíma og satt að segja held ég að mér hafi ekki liðið svona vel í mörg ár. Sennilega ekki síðan á sokkabandsárum sambands okkar Jonathans. Mér tókst að virkja hugann. Ótrúlegur persónulegur sigur. Mér tókst að temja mér jákvæðari hugsun og þegar þunglyndishugsanir, depurð og sjálfsniðurlægingin hellir sér yfir mig þá hef ég getað skipt um gír með því að taka nokkur skref til baka, reyna að sjá aðstæður í nýju (jákvæðara) ljósi og í stað þess að einblína alltaf á það neikvæða að sjá það jákvæða sem er í gangi. Hlakka til þess sem framundan er frekar en að velta mér upp úr því sem liðið er og hafa áhyggjur af hlutum sem ekki hafa ennþá átt sér stað. Ég held að þetta sé nokkurnvegin það sem hugræna atferlismeðferðin sem ég á að fara í snúist um. Ótrúlegt hvað jákvætt hugarfar getur breytt miklu ÞEGAR maður er fær um að hugsa þannig. Ég get fullyrt að fyrir ekki lengri tíma en 6 mánuðum hefði ég aldrei getað náð þessum árangri. Þá hefði ég sennilega verið líklegri til að yfirgefa börn og bú og flytja langt langt í burtu þar sem ég hefði getað verið alein og "ekki fyrir neinum" enda aðstæður í lífi mínu og hausnum á mér svo ótrúlega ólíkar. Núna hef ég "heilsuheimsækjara" sem kemur einu sinni í mánuði og talar við mig (og hlustar á mig) og hjálpar mér að skipuleggja mig. Hún fer líka yfir það sem hefur verið að og bendir á alla góðu hlutina sem eru í gangi sem maður einfaldlega getur ekki séð þegar maður liggur í þunglyndi í bælinu. Og nú er þetta orðið miklu lengra en ég ætlaði mér og Þór vaknaður þannig að það er best að ég hætti. Ég óska ykkur öllum sem þekkja h******s hundinn af eigin reynslu góðrar geðheilsu sem fyrst.

Ástarkveðjur og ble ble ble,

P.s. ábendingar um stafsetningavillur eru vel þegnar þar sem málvitund mín er óðum að hverfa.

5 Ummæli:

Þann 20/11/06 20:38 , Blogger Berglind Rós sagði...

Gaman að fá svona ýtarlegar fréttir af ykkur öllum saman :-) Og þið eruð öll svo dugleg! Litli búturinn minn er hvorki farinn að velta sér né grípa í dót, enda vill hann helst bara láta halda á sér þá sjaldan hann er vakandi :-P

 
Þann 21/11/06 21:02 , Anonymous Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra að ykkur liður vel í Englandinu. Og til hamingju með frábæran persónulegan sigur!
Þú átt alveg ofsalega sæt börn! Kærar kveðjur Lilja

 
Þann 22/11/06 10:29 , Blogger Sigga Lára sagði...

Jeij! Það mætti halda að þú hefðir verið að tala við sálfræðinginn minn! Ég geng til hennar núna reglulega, einu sinni í viku, með það að markmiði að jarða hundkvikindið, helst bara í alveg laaangan tíma.

Æðislega gaman að fá svona fréttasultu. Hlakka til að sjá ykkur öll, vonandi kringum áramót. (Þó Árni sé reyndar eitthvað að hóta því að tíma ekki að fara að heiman um áramót af því að það er svo gott að vera í nýju íbúðinni... á eftir að snúa því ofan af honum. ;-)

 
Þann 22/11/06 12:32 , Blogger Spunkhildur sagði...

Takk fyrir að vera til. Það er svo gaman að heyra af ykkur skötuhjúum og litlu klílunum.

Guð veri með ykkur öllum...

 
Þann 22/11/06 15:10 , Blogger Þórunn Gréta sagði...

Já, yndislegt að lesa svona langa sögu. Gott að hundurinn sé strokinn og þessi heilsuheimsækjari er eitthvað sem mætti alveg fyrirfinnast hér á klakanum... ég hef a.m.k. aldrei heyrt um þannig batterý... en alla vega, yndislegt til þess að vita að líf þitt, börnin þín, ástin, gleðin, málvitund þín og stafsetning eru til stakrar fyrirmyndar ;)

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim