júní 05, 2003

Wanadoo er ekki búið að vera skemmtilegt við mig. Ég komst a netið i fyrsta skipti i gær i meira en viku. Það er mjööög pirrandi og þessu netfyrirtæki ekki til sóma, en aftur á móti svo dæmigert franskt. Ætli starfsfólkið hafi ekki bara verið í verkfalli... Alltaf allir í verkfalli í Frakklandi. Frönsk stelpa sem ég þekki segir að Frakkar fari alltaf í verkföll í maí. Það eru svo margir lögboðnir frídagar hér í maí að þeir nenna bara alls ekki neitt að fara í vinnuna og finna sér bara eitthvað til að fara í verkfall yfir.

Það er rigning. Blómin í garðinum eru mjög glöð. Og svo virðist sem skorkvikindi af stærri gerðinni séu mjög glöð líka. Alskyns asnaleg kvikindi sem ég hef aldrei séð áður búin að leggja mig í einelti í dag. Koma fram í dagsljósið þegar rignir. Það eru bara svikapöddur sem gera svoleiðis. Þær eiga alls ekki að vilja vera í vatni.

Svo er annað. Hópur herskárra maura gerði innrás í nótt og það var allt vaðandi í maurum innandyra þegar ég fór á fætur í morgun. Nú er búið að eitra alls staðar og líma fyrir allar hugsanlegar inngönguleiðir þessara kvikinda, sem og þrífa gólfin með tannbursta og vítissóda (svona næstum því).

Ég er barasta orðin sannfærð um að í þessu landi fást engar skóhillur og hef hugsað mér að verða ríkur skóhilluframleiðandi í Frakklandi. Ég er búin að fara í margar margar margar margar margar margar búðir að leita að svoleiðis apparati, en nei. Svoleiðis er bara óþarfa hégómi sem enginn ætti að hafa á sínu heimili, líkt og mannasiðir svo vitnað sé í fræga menn.

Arabar áreita mig hvar sem ég fer, svo mikið að lá við slagsmálum milli fylgdarsveina minna og nokkurra araba um síðustu helgi. Svo er svo mikið af dónalegum karlmönnum sem flauta á eftir manni og láta öllum illum látum, hanga hálfir út um bílgluggana til þess eins að æpa á mann einhvern hroða. Sem betur fer skil ég þá ekki ennþá. Mér finnst samt óþolandi að geta ekki verið ein á ferð eftir að það er orðið dimmt. Grrr.

Annars er lífið hér í Montpellier frekar þægilegt og ljúft. Sólin skín í 9 daga af hverjum 10 og hitastigið hefur ekki farið niður fyrir 25 gráður síðan ég kom. Ég er búin að breyta öllu innandyra og koma dótinu mínu fyrir og má segja að ég sé loksins formlega flutt inn. Ég er samt ekki formlega flutt til Frakklands því ég þarf allskonar eyðublaðadót og eitthvað pappírsvesen til að verða lögleg hér. Nenni ekki að standa í því alveg strax því ég þarf að öllum líkindum að koma heim í ágúst og alveg eins gott að redda hlutum þá. Aldrei að gera neitt strax sem þú getur gert seinna.

Aukakílóin eru farin að tínast utan á mig. Það er nú aðallega vegna þess hversu það er gott að fá sér glas af víni eða bjór í hádeginu þegar það er sem allra heitast. Annars stendur það nú til bóta. Við erum voða dugleg og förum út að hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í viku og gerum allskyns æfingar og lyftum lóðum og svoleiðis og stefnum að því að vera heitasta parið á ströndinni í haust (je ræt...).

Hræðilegt að heyra með Markús. Skil nú ekkert í henni Berglindi að vera að hryggbrjóta manninn á þessum síðustu og verstu tímum. Skilur hún ekki hvað það er mikilvægt að hafa góða fyrirvinnu á heimilinu... Á hinn veginn yndislegar fréttir með Siggu Láru. Mikið vona ég að það sé meira vit í þessum lækni en þeim sem greindi hana upphaflega. Og SiggaDís og Ásta Kristín báðar orðnar stúdentar. TIL HAMINGJU !!! Það er enginn smá dugnaður sem þarf að hafa til að drífa sig af stað eftir langt hlé og klára stúdentsprófið. Sérstaklega þegar fólk er í fullri vinnu, jafnvel með heimili og börn... Hreinn og klár hetjuskapur.

Ég er kannski að fara til Englands í 10 daga. Jonathan þarf að fara að vinna þar og Dell ætlar kannski að borga fyrir mig líka - Takk herra Dell - Ef af því verður, þá verðum við þar á afmælinu okkar. Við verðum sextug Jónatan 31s og ég 21s (er ekki 31+21 annars 60?) 15. júní. Þá fæ ég kannski bara ekta breska sunnudagssteik í hádeginu á afmælisdaginn og te á eftir :)

Nóg í bili, njótið lestrarins.

P.s. Þar sem margir hafa verið að spyrja um heimilisfangið mitt læt ég það fylgja með:

25 Impasse des Picholines
34090 Montpellier
France

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim