júlí 22, 2003

Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn Jónatan
Sagði svo og spurði svo
hvar áttu heima?

Hann sagði:

Ég á heimí brakandi, hitnandi, bráðnandi.
Ég á heimí steikjandi.
Frakklandinu góða

Og það eru sko orð að sönnu. Hér hefur verið á bilinu 37 – 40 stiga hiti og ekki hægt að vera utan dyra sökum hita. Við erum samt búin að nota nýju sólbekkina frekar mikið síðan við komum heim frá Englandi enda óskaplega notarlegt að liggja þar og horfa á sólina setjast á kvöldin og finna hvernig hitastigið fer niður á sæmilega þægilegt level.

Aðeins um England

Ég naut þess svo sannarlega að fara til Englands. Ég var mjög heppin með veður, það ringdi næstum ekki neitt og sólin skein meira og minna allan tímann. Hitinn var um 20 gráður - mjög temmilegt sumsé.

Við komum til Englands um miðnætti, sóttum bílaleigubílinn og keyrðum til Bracknell þar sem Dell er með skrifstofurnar sínar (Jónatan vann þar áður en hann færði sig niður til Montpellier). Eftir því sem ég hef heyrt er Bracknell "skítapleis" og ekkert um að vera. Mér var alveg sama því hótelið var vægast sagt frábært og það fór afskaplega vel um mig þar.

Ef þið hafið lesið bækur eftir Victoriu Holt þá getið þið sennilega ímyndað ykkur hvernig hótelið var. Það er svona eins og herragarðurinn sem ríki hlédrægi maðurinn. Þessi sem átti erfiða æsku, var svikinn af besta vini sínum, missti foreldra sína ungur og hafði framkomu sem bar vitni um kalda sál og leyndarmál, hulin bak við karlmannlega fegurð, hraustlegan líkama og þessa miklu dýpt í augunum. Þessi sem kemur ungu, fögru, ótrúlega greindu og hæfileikaríku, fátæku stúlkunni sem öklabraut sig þegar hún var að tína ber í skóginum handa lömuðum bróður sínum sem ekkert hafði annað að borða, til hjálpar og hún afhjúpar leyndardóminn í augum hans og finnur mýktina í sálu hans. Og þau lifa hamingjusöm til æviloka.

Sumsé - hótelið var svooo fallegt. Svona hefðbundinn breskur herragarður með risastórum lystigarði, gosbrunni og allskonar skemmtilegu dóti. Það var meira að segja hægt að spila krokket í garðinum. Ó hvað ég skemmti mér þegar bretarnir tóku fram krokketkylfurnar og fóru að spila. Ég var nú hálf glottandi allan tímann meira og minna því Bretar eru alveg eins og maður sér í sjónvarpinu (alla vega þessir sem eru komnir yfir fertugt). Í garðinum var líka fullt af kanínum, íkornum og moldvörpum og alls kyns fuglum sem ég hafði aldrei séð áður. Mér fannst mjög gaman að fylgjast með dýralífinu þarna, vildi óska þess að við hefðum eins fjölskrúðugt dýralíf heima á Íslandi.

Ég borðaði hefðbundinn barhádegismat nokkrum sinnum og fór að borða á karrýhúsi og kínverskum veitingastað og fékk ofsalega góðan mat. Mmmmm - ég held að Indverskt karrý sé orðið uppáhalds maturinn minn. Nammmmm.

Við fórum oft í heimsókn til foreldra hans Jónatans. Þau eiga hús í High Wycombe (hæ vikkum, veit sko ekki hvers vegna það er borið svo leiðis fram) með voða stórum og fínum garði enda garðyrkja eitt aðal áhugamál Hávarðs, pabba hans Jónatans. Við fórum líka í heimsókn til æskuvinar Jónatans sem býr í Maidenhead. Við fórum á hverfisbarinn hans og drukkum bjór og spiluðum pool og borðuðum kebab. Ég drakk minn bjór með röri til heiðurs Heiðu Skúla og fékk vægast sagt mörg hornaugu frá öðrum gestum staðarins.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim