nóvember 26, 2003

Jamm og jæja.

Ég bý í yndislegum . Hér er allt lítið og sætt og búðirnar eru svona eins og verslunarfélagið á Selásnum eða Ártún. Síðan er svo stutt í náttúruna. Strönd með sandi, fjara með steinum, rekaviði og skeljum, sjór, skógur, akrar. Við förum niður í fjöru og sækjum okkur rekavið til að brenna á arninum. Stutt að fara allt og stutt að fara í "menninguna" til Montpellier. Bara ef það væru ekki svona margir Frakkar hérna. Hei - og vitiði hvað? Hér er líka fullt af skrýtnum fuglum. Bleikir flamíngófuglar hundruðum saman. Um daginn þegar við vorum að keyra í vinnuna sáum við hóp af páfuglum. ÓÓÓtrúlega fallegar fjaðrir. Og síðast en ekki síst -tatarataddatamm - Strútar. Já, það er strútabúgarður hérna rétt hjá þannig að á túnunum vestan við þorpið er allt morandi í strútum. Þetta svæði er samt þekktast fyrir að framleiða Múskat-vín og hunang. Þannig að ef ykkur langar í hunangslegna strútasteik með múskatvíni þá er þetta staðurinn til að heimsækja (Anyone? Jón og Nanna???).

Annars er þetta í fréttum helst:

Það er ennþá gaman í skólanum þó mér finnist ég bara standa í stað núna. Við lærum svo margt nýtt á hverjum degi að ég næ engan vegin að festa það allt í hausnum á mér og mér hefur held ég ekki farið neitt fram í því að búa til setningar og svoleiðis. Ég hins vegar skil meira með hverjum deginum sem líður.

Það er brjálað að gera í vinnunni hjá Jólatani. Hann er "on call" í fjórar vikur núna sem þýðir einfaldlega að hann nær ekki að sofa mikið meira en 2-3 klukkutíma í einu. Sjálfsagt svipað og að vera með barn á brjósti... Síminn hans hringir látlaust og þá þarf hann að fara á fætur og vinna í einhverja stund og svo aftur í bælið og vona að hann fái að sofa í friði fram á morgun. Sem gerist eiginlega aldrei.

Jólaheimferðin er komin á hreint. Við komum til Íslands 22. desember, lendum í Keflavík kl. 16:00 og förum svo til Egilsstaða á þorláksmessu með hádegisvél. Við förum aftur 2. janúar Egst. - London.

Mig langar að baka jólasmákökur en ég bara kann ekki að baka í gasofni. Það verður allt einhvernvegin skrýtið sem ég baka. Hitinn kemur allur frá botninum á ofninum þannig að þegar ég baka brauð t.d. þá brúnast skorpan ekkert heldur verður botninn á brauðinu voða gullinn og fínn. Ætli ég verði að baka smákökurnar á hvolfi ;) ? Ég ætla alla vega að baka kryddbrauð á eftir og vona að það verði gott. Mig hefur langað í kryddbrauð í marga mánuði og núna er ég búin að finna uppskrift í boði þessarar hérna.

Bless í bili.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim