nóvember 10, 2003

Skólinn minn er lokaður í dag. Það er vegna þess að það er opinber frídagur á morgun og ekkert eðlilegra en að loka bara skólanum svo kennarar fái þægilegra helgarfrí. Undarlegt. Ég er hrædd um að fyrirtæki kæmust ekki upp með þetta heima. Og fyrst ég er byrjuð - Einstaklingar með lítil fyrirtæki. Hér er ennþá bakarí og slátrari á hverju götuhorni, tóbak og dagblöð er selt í sérstökum búðum og hér eru litlar "kaupmaðurinnáhorninu" búðir út um allt. Ef starfsfólkið eða eigendur vilja fara í frí þá er bara lokað. Það er ekki hægt að treysta á að maður geti alltaf farið í sama bakaríið klukkan 12 á þriðjudögum til að kaupa brauð. Kannski ákvað bakarinn að skella sér í skíðaferð til austurríkis með börn og buru (hvað er eiginlega þessi bura? vorum við einhverntíman búnar að komast til botns í því Ásta?) og þá lokar hann bara og límir óásjálegan blaðsnepil á stærð við frímerki á hurðina eða gluggann hjá sér og tilkynnir lokað til 1. desember. Svo er rigning og rok 5. desember og þá bara nennir bakarinn ekkert að opna bakaríið sitt því "það kemur hvort sem er örugglega enginn" og þeir sem nenna að koma berjast í veðrinu gegn rigningu og roki til að fara í uppáhalds bakaríið sitt til að kaupa uppáhalds brauðið sitt og koma að luktum dyrum. Þetta gera allir sem eru með lítil fyrirtæki. Bara opna og loka eftir hentisemi og er alveg sama um viðskiptavininn enda starfsfólk í þjónustustörfum í frakklandi ekki í vinnunni til að þjónusta viðskiptavininn. Viðskiptavinurinn á að vera þakklátur fyrir að einhver nenni að vera þarna og má bíða undirlútur þar til viðkomandi starfsmanni þóknast að líta upp úr blaðinu, hættir að blaðra í símann og skáskýtur augunum letilega til þín. Undarleg fyrirbæri Frakkar. Ég er ekki viss um að nokkur kæmist upp með að loka búðinni sinni eða sjoppunni svona eftir hentisemi heima á Íslandi. Hann myndi fljótt missa viðskiptin.

Jamm

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim