apríl 15, 2005

Það er gott að vera ég þessa dagana. Það er stjanað við mig í bak og fyrir og ég þarf bara aldrei að gera neitt. Mér er bara skipað að hvíla mig og ef mig vantar eitthvað er mamma mætt til að færa mér það. Húsið er alltaf glansandi fínt og væri öllum stundum hægt að bjóða ljósmyndara frá Húsi og Híbýlum í heimsókn. Ég er hrædd um að kæmi Heiðar snyrtir í heimsókn með sinn draslher yrði það fýluferð.

Við erum annars bara mjög hress, ég og krílið, ef ekki væri fyrir klemmda taug í mjöðm. Það er VONT. Skrefalengd fór niður í u.þ.b. 5 cm. Gönguhraði allt að því neikvæður og það tók alveg óratíma að gera alla hluti. Sumt gat ég bara alls ekki gert. En þetta er nú að lagast sem betur fer. Það gæti haft eitthvað með það að gera að bumban er aðeins farin að síga. Vona að þetta verði alveg farið áður en barnið fæðist. Og talandi um barnið, því liggur bara ekkert á. Ekkert að gerast á þeim vígstöðvum (39 vikur í dag, settur dagur næsta föstudag). Ég geri svo sem ekki ráð fyrir því fyrr en um næstu helgi. Ef ég fer af stað og næ ekki að láta vita á blogginu þá er ég viss um að annað hvort Heiða sys eða Snærún sys minnast á það á sínu bloggi. Annars reyni ég nú að komast aðeins í tölvuna til að láta vita ef eitthvað fer að gerast.

Að lokum: Elsku mamma - þú ert best í heimi og það er algjörlega ómetanlegt að hafa þig hérna hjá mér. Mikið er ég heppin að eiga þig að.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim