mars 07, 2005

Þá er komið að þessu mánaðarlega. Þ.e. bloggi. Ekki alveg komið að hinu mánaðarlega ennþá en farið að styttast. Ég er ein heima og verð það í tvær vikur :( Jónatan er á námskeiðum í Reading að læra á nýtt Oracle gagnagrunnakerfi sem Dell er að fara að taka í notkun bráðum.

Mér varð litið út um eldhúsgluggann áðan og brá heldur betur í brún. Á götunni fyrir framan húsið skoppaði drengur, á að giska 12 ára með eldrautt hár og freknur. Hefði sem best getað verið Alexander Siggudísarson. Rauðhært fólk er nebblega mjög sjaldgæft hérna. Það er ekkert sérlega merkilegt að vera ljóshærður, heldur merkilegra að vera bláeygður en alveg allra merkilegast að vera rauðhærður með hvíta húð og freknur.

Mig minnir að fyrir margt löngu hafi ég spurt á þessari blessuðu síðu af hverju manni brygði í brún og ég man ekki hvort ég fékk einhver svör. Þess vegna ætla ég að spyrja aftur og ef einhver er svo fróður að vita það (eða nenninn að vilja fletta því upp) þá má sá hinn sami tjá sig í tjásuboxið hér fyrir neðan.

Ég er búin að smíða eitt stykki kommóðu og þrífa ofan af og innan úr eldhúsinnréttingu með kúluna út í loftið og tengdamóðið mín rambar á barmi taugaáfalls. Hvað hefur hún unnið til þess að hljóta svona ómeðfærilega tengdadóttur. Hlýtur að vera vont karma. Ég hef ekki enn lagst í bómullarbeðið sem hún vildi að ég hefðist við í á meðan á þessari meðgöngu stæði. Kannski ég ætti að redda mér einu slíku og geyma hana í því þegar hún er í heimsókn ;) Annars er hún er söm við sig. Kaupir og kaupir barnahúsgögn án þess að spyrja hvort við þurfum þau og hvernig við viljum hafa þau. Það er sjálfsagt vanþakklæti í mér en ég vildi samt gjarnan hafa eitthvað með það að segja hvernig húsgögn eru keypt þar sem ég þarf að búa með þetta dót í langan tíma. Mér datt í hug að kaupa handa henni sófasett og láta senda það heim til hennar. Gá hvað henni finnst um það ;) Hún er alveg met þessi kona. Alveg yndislegust að svo mörgu leyti en bara að dreeeeepast úr stjórnsemi og getur ekki hamið sig og það er svo fyndið (og stundum alveg rosalega pirrandi). Þetta er samt skiljanlegt af því að þangað til ég kom til sögunnar stjórnuðu þau foreldrarnir lífi Jonathans meira og minna og hann tók yfirleitt ekki ákvarðanir án þess að.... Ja, ég held hann hafi bara yfirleitt ekki tekið ákvarðanir. Fannst bara ágætt að einhver gerði það fyrir hann. Svo kemur einhver stjórnsöm frekja til sögunnar og þau fá ekki lengur að ráða neinu. Og allt í einu er litli drengurinn þeirra orðinn stór, kaupir sjálfur fötin sín og fer í klippingu þegar hann vill (og nb. velur klippinguna sjálfur) og gerir hluti án þess að hafa þau með í ráðum. Alveg handónýtt ;) Og hún er enn miður sín yfir nafnavali okkar og hringir reglulega eftir andvökunætur og leggur til hin og þessi nöfn sem henni finnast hæfa betur en það sem við höfum valið. Blessunin. Hún er fyndin. Og nóg er það um tengdamóður mína í bili. Gott að hún kann ekki íslensku ;)

Þá er þessu tengdamömmubloggi lokið og kveð í bili. Elska ykkur öll.

Ble ble ble,

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim