ágúst 01, 2003

Já, ég baka sko engar vöfflur handa heimilislausu vespunum. Þeim er hins vegar alveg frjálst að halda áfram að borða köngulærnar úr garðinum mínum. Ég sakna þeirra ekkert voðalega mikið.

Annars var okkur boðið í afmælisgrillveislu til Dave's Brown síðasta miðvikudag og ég ákvað að baka handa honum risastóra súkkulaðiköku með jarðarberjum, hindberjum og rjóma. Kakan var bara ótrúlega fín miðað við að ég hef ekki bakað köku í mörg ár. Svo þegar við vorum svona um það bil að leggja af stað í grillið hringir áðurnefnt afmælis"barn" til að láta vita af því að ekkert yrði af grilli, hann fékk nefnilega í mallann greyið. Það var kaka í kvöldmat hjá okkur á miðvikudaginn.

Í gærkvöldi var svo síðasta kvöldið hans Símons hjá okkur. Hann er nefnilega að flytja í dag. Jónatan ákvað að elda Karrý sem var svo sterkt að maður svitnaði við að borða það. Við fengum okkur svo köku í eftirrétt. Í dag er starfsfólk IT deildar DELL að borða afganginn af kökunni. Ég gat amk ekki hugsað mér að borða meira af henni þó svo ég hefði sennilega getað borðað ekkert nema köku í marga daga í viðbót. Svo stór var hún.

Við erum búin að fá frystiskápinn og eldavélina sem við keyptum um daginn. Eldavélin er gas og ofninn líka svo nú þarf að fara að læra að elda uppá nýtt. Frystiskápurinn er svo stór að það væri hæglega hægt að "fela" lík inní honum. Frakkar sem á vegi mínum verða mega passa sig að ergja mig ekki, ellegar þeir enda í frystinum hjá mér. Múhahaha.

Uppúr fjögur erum við Jónatan að fara í Paul Valery, háskólann þar sem ég ætla að reyna að fá að taka prófin, að tala við einhvern kall sem ætlar að sjá um þetta hér. Ég þarf sennilega ekki að taka nema tvö próf í ágúst því allt í einu datt mér í hug að kannski gæti ég notað eitthvað af einingunum sem ég kláraði í tölvunarfræðinni í staðin fyrir valfagið sem ég ætlaði að taka í ágúst. Og það var samþykkt. Tölvunarfræði 1a verður metin inn í viðskiptafræðina í staðin fyrir viðskiptasiðfræði og ég þarf bara að taka tvö próf. Það er bara eitt vandamál (!!! hver sagði það á sínum tíma ?) prófin sem ég þarf að taka eru bæði á laugardegi. Það er eitt að fá Frakka til að gera sér greiða, annað að fá þá til að gera sér greiða í ágúst (því þeir vilja alls ekki vinna í ágúst) svo ekki sé nú talað um hversu erfitt verður að fá þá til að gera sér greiða í ágúst og á laugardegi í ofanálag. Þannig að - nú fer loksins að verða ljóst hvort ég kem heim í ágúst eður ei. Mest af öllu langar mig að koma heim því mig langar svooo að vera í brúðkaupi fangors en þar sem fjárhagsstaða mín er neikvæð og ég er algjörlega háð öðrum um framfærslu þá verð ég víst að sætta mig við það að taka prófin hér. Allt sem ég get gert er að bíða og vona að ég geti ekki fengið að taka prófin hér. Ég læt vita um það um leið og endanleg niðurstaða fæst.

Annars er plan dagsins að lufsast til að læra smá, fara svo í háskólann og tala við þennan mann (þ.e.a.s. Jónatan talar og ég sit bara eins og illa gerður hlutur og brosi og skil ekki orð af því sem fer fram) og svo að hjálpa Símoni að flytja.

Það verður skrýtið að vera aftur bara tvö ein í húsinu. Símon er búinn að búa hérna í næstum ár og er góður og vænn drengur og skemmtilegur félagsskapur, soldið (mikið) latur en honum fyrirgefst það því hann er svo fyndinn og frá því ég kom til Frakklands síðasta vor hefur aðeins liðið ein helgi án þess að við séum með gesti. Nú líður alveg ein og hálf vika þar sem við erum með húsið alveg út af fyrir okkur. Það verður skrýtið en ég hlakka líka óskaplega mikið til. 13 ágúst kemur Gemma og hún gistir í viku. Hún er að fara í brúðkaup 16 ágúst (sem ég er líka boðin í en ég vil ekki fara í. Ef ég fer í eitthvað brúðkaup þann dag verður það brúðkaupið hennar Nönnu :() Gemma fer sumsé aftur 20. ágúst, 22 kemur Nick vinur hans Jonathans og verður í rúma viku og svo strax í byrjun september kemur Claire, vinkona Jonathans og verður í rúma viku. Svo var pabbi minn að nefna það að koma kannski í byrjun eða um miðjan september og þá verður sko gaman. Mikið yrði ég glöð ef elsku besti pabbi minn kæmi að heimsækja mig :):):):):):):) Hann er samt ekkert búinn að ákveða, hann nefndi þetta nú bara svona í framhjáhlaupi, en VÁÁÁ hvað ég yrði glöð.

Ég er búin að vera með svoldið mikla heimþrá undanfarið. Mig langar svo að tala íslensku og skilja fólkið í búðinni og hitta alla vini mína og fjölskylduna og - Æi það er bara svo gott að vera á Íslandi. Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim næst. Og ég er sko búin að heita því að þetta árið ætla ég að skrifa jólakort til allra vina og ættingja fjær og nær og og og og sko ég ætla sko að vera dugleg að hafa samband. Og þá er það orðið opinbert.

Knús til ykkar allra sem nennið að lesa þetta og ástar- og saknaðarkveðjur.

P.s. ég þakka bara fyrir að það eru ekki mörg r í nafninu mínu og ekki hægt að bera það fram með sérstaklega frönskum hreim. Einhverra hluta vegna hafa enskumælandi samt gífurlega tilhneigingu til að segja Svendis sem mér finnst alveg ótrúlega ljótt (samt skárra en Sandy... tíhí)

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim