nóvember 05, 2004

Já, hún bloggaði. Ótrúlegt en satt.

Nú er haustið komið hérna (loksins) og laufin á trjánum farin að fá á sig haustlitina. Þrátt fyrir það fer hitinn hérna nú samt sjaldan niður fyrir 12 gráðurnar. Hér einkennist haustið af rigningu, rigningu og rigningu eins og hellt sé úr fötu. Maður verður holdvotur af því einu að skjótast frá útidyrunum og inn í bíl. Vesalingunum hér finnst voða kalt alltaf og klæða sig í þykkar úlpur en mér finnst þetta bara ágætt. Það er allt of heitt hérna á sumrin til að það geti kallast þægilegt.

Það er því mikið að gerast í meðgöngu- og fæðingarundirbúningsstússi hjá okkur núna enda að mörgu að hyggja. Þetta er allt svo flókið hérna. Ég þarf að flytja sjúkrasamlagstrygginguna mína til Frakklands því annars myndi sjálfsagt kosta okkur aleiguna ef eitthvað kæmi uppá og ég þyrfti að fara á sjúkrahús og jafnvel ekki víst að ég gæti fengið sjúkrahúsvist. Það á því eftir að koma í ljós hvar ég fæði barnið. Mig langar náttúrlega miklu meira til að fæða heima en ef það reynist nauðsynlegt fyrir mig að flytja lögheimilið mitt og allt sem því fylgir hingað þá fæði ég hér. Ef svo fer þá ætlar mamma að koma til mín og vera hjá mér. Það breytir öllu. Ef ég hins vegar fæði á Íslandi þá kem ég heim um miðjan mars og verð þangað til barnið er u.þ.b. tveggja vikna gamalt.

Ég hef verið mjög heppin og ekki fundið fyrir miklum óléttueinkennum. Bara ofurþreyta í byrjun og svo tilfinningasemi og lítið annað. A.m.k. ekkert sem tekur því að tala um. Að öðru leyti hef ég bara verið mjög hraust og barnið dafnar vel. Enn sem komið er sést ekki á mér að ég sé ófrísk. Ég fór í þriðju sónarskoðun í fyrradag og Jonathan kom með mér. Það var alveg yndislegt. Litla krílið spriklaði og veifaði með öllum pínulitlu puttunum sínum og læknirinn sem skoðaði okkur sagði að allt liti mjög vel út. Barnið er núna 10,5 cm. frá rófubeini og upp úr og í dag er ég gengin akkúrat 16. vikur. Jonathan var svo hrærður þegar við komum út úr skoðuninni og kyssti mig og faðmaði og knúsaði á alla kanta. Hann bara gat ekki slitið af mér augun (sem er eins gott, gæti verið svolítið sárt...) Á morgun þarf ég svo að fara í um það bil milljón blóðprufur og þvagprufur og síðan er næsta skoðun hjá kvensjúkdómalækni þann 16. nóvember.

Af öðrum vígstöðvum er bara ágætt að frétta. Lífið gengur sinn vanagang. Jonathan vinnur og vinnur. Ég sinni heimilinu (les. horfi á sjónvarpið og spila tölvuleiki) og hekla og prjóna handa frumburðinum. Ég er aðeins byrjuð að kaupa jólagjafir því ég þarf að senda þær heim þetta árið. Ég er strax farin að hlakka til jólanna þó þau verði örugglega dálítið skrýtin þetta árið. Við ætlum að eyða jólunum hér og verðum bara tvö ein. Ég held það verði samt bara gaman og rómantískt. Ég fæ mömmu örugglega til að senda mér bita af hangikjöti og nokkrar laufabrauðskökur svo mér finnist meira jólalegt.

Ég varð ósköp stolt í gær þegar Ísland kom í fréttum hér úti vegna eldgossins í Vatnajökli. Það þarf lítið til að vekja í manni þjóðarstoltið. Ég elska eldgos og verð alltaf þvílíkt spennt þegar þau brjótast fram. Ég er að verða hinn óþolandi Íslendingur því mér finnst merkilegra og merkilegra að vera Íslendingur eftir því sem ég er lengur hérna úti. Ég þreytist aldrei á að segja fólki sögur að heiman og tala mikið um að hvergi sé betra að vera og blablablablabla. Aumingja þeir sem þurfa að hlusta. Ég vona að einn góðan veðurdag geti ég sannfært Jonathan um að þar sé best að vera svo hann vilji flytja þangað með mér en ég verð ábyggilega að bíða eftir því í að minnsta kosti 10 ár.

Að lokum ástarþakkir fyrir bréfið og smekkinn Heitiég. Þú ert svo mikið yndi.

Bless í bili,

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim