ágúst 13, 2003

Jæja, þá er tölvan mín orðin vírusuð og ég á í stökustu vandræðum með að ná mér í uppfærslur á windows svo ég geti sett inn plástur til að laga það sem vírusinn skemmdi (eða eitthvað þannig, ég kann nú ekki einu sinni almennilega að tala um þetta).

Það er orðið opinbert frá og með hádegi dagsins í dag Frakkinn sem ætlaði að hjálpa mér í háskólanum hér er kúkur og svikari en ég fæ að taka prófin í sendiráðinu í París. Það er í sjálfu sér ágætt, en ég var hálfpartin að vona að þetta með að taka prófin hér rynni allt út í sandinn og ég "neyddist" til að koma heim til að taka þau. Mig langar svooo að koma heim. Mér finnst hræðilegt að missa af brúðkaupinu þeirra Nönnu og Jóns Geirs. Ég missti af brúðkaupi bróður míns út af einhverju heimskulegu prófi í þjóðhagfræði A sem ég varð að taka og var ekki hægt að færa fyrir mig (af því að það hentaði víst hinum 499 sem voru að taka kúrsinn að taka prófið þá) og svo á brúðkaupsdag Nönnu og Jóns verð ég í prófi í Þjóðhagfræði B sem, viti menn, er kenndur af sama manni. Ég held hann hafi einstaka innsýn í hvað mig langar EKKI til að vera að gera á brúðkaupsdögum fjölskyldu og vina. Annars ætla ég ekki að bölva honum frekar. Hann er yfir höfuð afskaplega hjálpsamur kennari og vill nemendum sínum aðeins það besta sem er ekki hægt að segja um alla kennara, því miður. Ég vildi óska að ég ætti fullt fullt af péning svo ég gæti bara samt komið heim til að vera við brúðkaupið. Ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil - oh það virðist ekki ætla að virka að fá frekjukast :(

Annars er Jónatan bara fárveikur. Hann er með næstum 40 stiga hita og liggur bara í einhverju móki. Ég veit ekkert hvað er að honum. Sjálfsagt bara einhver pest. Annars grunar mig að þetta sé vökvaskortur. Hann fór út að hlaupa í gær, ég treysti mér ekki til að fara að hlaupa, fer nú yfirleitt ekki ef hitinn er meiri en 35 gráður. Hann hins vegar ákvað að drífa sig og svo var hann orðinn veikur í morgun. Ég veit reyndar ekki hvernig vökvaskortur lýsir sér en þetta er alla vega mín kenning.

Ég hef ekki getað skoðað kommentin mín nýlega því vírusinn leyfir það ekki. Þess vegna hef ég ekki svarað neinu sem þar hefur komið fram. Ég er að sækja mér vírusvarnarforrit (já ég veit, ég er algjör auli að hafa ekki verið með svoleiðis) og svo þarf ég að reyna að nálgast þessa blessuðu service pakka frá microsoft svo ég geti sett plásturinn inn svo ég geti farið að nota tölvuna mína af einhverju viti aftur.

Svona að lokum, ég verð að deila þessari minningu með ykkur. Ég veit nú ekki alveg af hverju þetta kom allt í einu upp í hugann en alla vega, hér er þetta.
Ég fór á gott djamm einu sinni sem oftar með félögum mínum hjá stúdentaleikhúsinu. Ætli þetta hafi ekki verið á meðan við vorum að sýna Unga menn á uppleið eftir hana SigguLáru. Okkur fannst afskaplega góð hugmynd að halda partý eftir að við höfðum verið niðri í bæ og fórum þess vegna heim til vinar eins af stúdentaleikhússhópnum. Það var svo sem allt í lagi - allir í góðum fílíng, ég fór að leika mér í playstation ásamt fleirum en einn drengurinn hafði gríðarlega þörf fyrir að dansa svo hann skellti diskói á fóninn og stillti HÁTT. Svo dansaði hann og dansaði og við spiluðum og spiluðum playstation og húseigandi ásamt tveimur stúlkum (bara að taka það fram svo það valdi nú örugglega engum misskilningi, ég var ekki önnur þeirra) fann hjá sér gífurlega sterka þörf fyrir að fara í bað - öll saman - og ekki nóg með það. Baðvatnið varð að vera rautt. Þau létu renna í bað, sviptu sig klæðum og góðum slatta af rauðum matarlit skutlað samanvið baðvatnið og skelltu sér svo ofaní. Stemningin var ærslafull í stofunni þar sem playstation var í fullum gangi, tónlistin mjög hátt stillt og fólk að dansa á fullu. Stemningin á baðinu hefur án efa verið afar rómantísk, rautt bað og kertaljós. Þetta hélt áfram í dágóða stund og svo hringir dyrasíminn. Við fengum nú vægt sjokk, áttum ekki von á fleira fólki en dyrasíminn hélt bara áfram að hringja og hringja og hringja. Við sáum okkur ekki annað fært en að svara ef það skyldi nú hafa kviknað í húsinu eða eitthvað svo ég greip dyrasímann og sagði: Halló. Dimm karlmannsrödd sagði: Halló, þetta er lögreglan. Getum við fengið að tala við húseigandann. Ég: Hehemm hann er í baði (hvísla til hinna; rekið þau úr baðinu, löggan er hérna). Dimm karlmannsrödd: Hleypið okkur inn strax !!! (fyrir aftan mig heyrist - djö**** kjaftæði, löggan er ekkert hérna - þið þurfið bara að pissa eða eitthvað. Látiði okkur í friði) en tilneydd hleypti ég lögreglunni inn. Og það var óborganleg sjón þegar húsráðandi loksins lufsaðist upp úr baðinu og opnaði baðherbergishurðina á adamsklæðum einum saman. Svipurinn á lögregumönnunum, stelpunum í baðinu, húseiganda (sem hélt reyndar andlitinu ótrúlega vel). Samræður Löggu og húseiganda: Ert þú eigandi hússins? Já (svarar húseigandi í/með fullri reisn og gerði sér held ég ekki grein fyrir á þeirri stundu að matarlitur á það til að lita á manni húðina svo hann var frekar rauður á skrokknum) Kennitala! xxxxxx-xxxx Viljiði gjöra svo vel að lækka í tónlistinni. Nágrannarnir kvörtuðu, það væri kannski ráð að þið færuð bara öll í slakandi bað... Við heyrðum hlátrasköllin frá lögreglumönnunum þegar þeir voru komnir út á götu. Dansfíflið lækkaði í tónlistinni og húseigandi dreif sig aftur í baðið, hinn rólegasti. Ég hef sjaldan hlegið jafn mikið.

Ástarkveðjur,

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim