júní 29, 2005

Jæja - Hvað skal segja. Við erum að reyna að koma heim en gengur illa sökum vegabréfsvandræða. Það stóð til að koma heim 24. júní og vera í brúðkaupi Berglindar og Markúsar en við urðum að fresta heimkomu þar sem við fengum rangar upplýsingar um það hvernig við gætum ferðast með Heiðu Rachel. Okkur var nebblega í upphafi sagt að nægjanlegt væri að hafa fæðingarvottorðið hennar. Ekki reyndist það nú vera og við komumst ekki að því fyrr en tveimur vikum fyrir áætlaða heimkomu. Þá var okkur ráðlagt að láta bara setja hana í vegabréf hjá öðru hvoru okkar - sem er ekki hægt þar sem bæði Bretar og Íslendingar eru hættir að setja börn í vegabréf foreldra. Þar fór það út um gluggann. Þá var bara að sækja um franskt vegabréf fyrir hana. En það er ekki hægt því þeir gefa ekki út vegabréf fyrir börn yngri en 15 ára og þar sem við höfum ekki frönsk vegabréf er að sjálfsögðu ekki hægt að setja hana í okkar vegabréf (grrrrrrrrrrrrr). Við fengum líka að vita að hún er ekki sjálfkrafa franskur ríkisborgari þó svo að hún sé fædd hér, hún er ekki heldur sjálfkrafa breskur ríkisborgari því við erum ekki gift heldur er hún bara íslensk og ekkert annað (jesssssss). Hvað um það, nú þurfti að skrá hana í þjóðskrá á Íslandi svo ég gæti sótt um vegabréf fyrir hana. En það var ekki hægt. Ég var ekki með lögheimili í Frakklandi svo fyrst þurfti ég að flytja lögheimilið mitt til Frakklands (ég veit, lögum samkvæmt á maður að gera það innan 7 daga frá flutningi!!!) og þá var hægt að skrá Heiðu Rachel í þjóðskrá svo hún gæti fengið kennitölu. Og ég ELSKA ELSKA ELSKA ELSKA ELSKA ELSKA íslenskar stofnanir. Það eru allir svo greiðviknir og hjálpsamir og yndislegir samanborið við hér. Hvort um sig, lögheimilisflutningurinn og skráningin á að taka nokkra daga en þessar yndislegu konur á þjóðskrá aumkvuðu (?rétt stafsett?) sig yfir mig og komu þessu í gegn daginn eftir að ég faxaði upplýsingarnar. Þá var nú hægt að fara að sækja um vegabréfið. Til þess að gera það þarf maður að mæta í sendiráð eða eina af sendiskrifstofunum í eigin persónu. Ég var að fara að bóka lestarmiðann fyrir mig en ákvað að hringja aftur í sendiráðið í París áður en ég bókaði, bara til að vera viss um að ég væri með alla pappíra sem ég þyrfti. Nennti ekki að fara í fýluferð. Það var eins gott því við þurfum víst bæði að mæta á svæðið og skrifa undir umsóknina af því að hún er svona lítil og við erum ekki gift og ekki af sama þjóðerni. PÚFF.

Já, svona er það og við ætlum að reyna að komast til Marseille á morgun eða föstudag til að sækja um vegabréf. Það ætti að vera komið um miðjan júlí þannig að ætli ég reyni ekki að koma heim fjótlega upp úr því. Kannski um helgina sem byrjar 22. júlí..... Ágætt að setja stefnuna á það til að byrja með og sjá hvort Þrándur kallinn í götu haldi sig ekki í burtu.

Bið að heilsa ykkur í bili,
ble ble ble.

júní 27, 2005

Nýjar myndir af litlunni minni :)

júní 23, 2005

Er að setja myndir á netið og reyna að breyta blogginu svo það sé hægt að tjá sig... Luvja all

ble ble ble,

júní 22, 2005

Halló halló

Við erum á lífi og við hestaheilsu :) Afsakið langt blogghlé en ég bara gef mér aldrei tíma til að setjast niður og blogga. Of upptekin við að lesa annara manna blogg þá sjaldan að ég lendi á blessað netið.

Ég er að drepast úr hita. Hér hefur hitinn varla farið niður fyrir 30 gráðurnar og yfir miðjan daginn fer hitinn oft uppí 35 stig. Það er bara of heitt. Ég vildi óska að við hefðum loftkælingu í húsinu svo við gætum alla vega gert hitann hérna inni þolanlegan - innihitastig er yfirleitt ekki lægri en 27 stig og yfirleitt 29 eða 30 þrátt fyrir þrjár viftur sem hamast allan daginn. Það er bara óhollt að hafa svona heitt innan dyra. Heiðu Rachel finnst þessi hiti ekki heldur þægilegur og kvartar oft yfir miðjan daginn þegar heitast er. Eins og til dæmis núna og verður þetta því ekki lengra að sinni. Mun þó reyna að blogga aðeins oftar en á sex vikna fresti í framtíðinni.

Ástar og saknaðarkveðjur og ble ble ble,