júlí 30, 2004

Jahá, þá er það frágengi. Ég á flugmiða heim. JESS. Ég kem heim 19. september og fer út aftur 3. október. Ég hlakka svo til. Ég hlakka alltaf svo til. Bla bla bla bla bla bla langt að bíða... og svo framvegis.

Ég er að fara að bóka flugið mitt heim í september. Jei.

júlí 28, 2004

Ég ætla að búa til Lasagna í kvöld. Namm. Mér finnst það gott.

Átfríður bolla kveður.

júlí 27, 2004

Snertimúsin mín var ekkert biluð í alvörunni. Hún var bara að þykjast. Nú get ég aftur farið að spila gáfulega og örfandi tölvuleiki eins og minesweeper, bookworm og Inspector Parker ;)

Ég sá ansi athygliverða mynd í gær. Sláturhús 5, gerð árið 1972 eftir samnefndri bók (held ég örugglega). Ég skemmti mér konunglega við áhorfið þó myndin sé vissulega mjög súr á köflum. Ég ætla ekki að fara út í neina rýni hér enda er ég ekki mikill rýnir í mér. Ég ætla samt að varpa fram þeirri kenningu að í þessari mynd (sjálfsagt réttara að vísa í bókina, hef bara ekki lesið hana) komi fram hugmyndin að raunveruleikasjónvarpi. Treysti ég bókmenntafræðingum Íslands (ég þekki þá örugglega flesta, hehe) til að mylja þessa kenningu mína mélinu smærra og segið mér líka af hverju mér finnst ég eigi að þekkja þessa mynd/hafa lesið bókina. Nafnið hringir nefnilega svo mörgum mörgum bjöllum en mér er algjörlega fyrirmunað að rifja upp hvaðan. Hvort ég hef heyrt kvikmyndasjúka vini mína tala um myndina eða bókasjúka vini mína tala um bókina eða hvort tveggja.

júlí 25, 2004

Það reyndist of heitt til að fara á ströndina. Hitinn skreið upp í 37 stig og þá nennir maður engu. Þess í stað las ég Tímar í lífi þjóðar eftir Indriða G. Þorsteinsson. Bókin inniheldur þrjár sögur, Land og synir, Norðan við stríð og 79 af stöðinni. Góð lesning, bæði fyndin og sorgleg. Land og synir er samt best að mínu mati og ég á pottþétt eftir að lesa hana aftur. Indriði nær bara á svo snilldarlegan hátt að lýsa sveitastemningunni og landslagið og fólkið varð svo skýrt í huga mér. Og ég fékk heimþrá þegar ég las um þokuna og skammdegið og regnið, hvernig það laumar sér inn undir skálmarnar og ofan í hálsmálið. Og þegar ég las um morgunsólina og um bjartar sumarnætur. Yndislegt líka að lesa aftur á íslensku, þökk sé ugluklúbbi Siggudísar og þremur nýjum kiljum á tveggja mánaða fresti.

Snertimúsin á tölvunni minni er biluð. Grrr. Ég kann ekki að nota svona hnappmúsþíngí.

Línuskautaði í gærkvöldi í tvo tíma í 30 stiga hita og hafgolu. Það var yndislegt. Borðaði heila melónu þegar ég kom heim.

Í dag ætlum við á ströndina að prófa nýja dótið okkar. Við ætlum að hjóla til Frontignion sem tekur ca. 1.5 klst. og svo lufsast á ströndinni fram undir kvöldmat og þá ætlum við út að borða. Svo hjólum við heim.

Ég ætti kannski að íhuga hjólaágræðslu. Geri hvort sem er ekki annað en að hjóla eða línuskauta. Hlyti að vera einfaldara að láta bara græða græjuna á sig...

lovjú,

júlí 24, 2004

Aftur komin helgi. Vá hvað tíminn er fljótur að líða. Þetta er bara ekki sanngjarnt. Ég get þó að minnsta kosti huggað mig við að bráðum kemur haustið með skaplegra veðri - OG BÁTSFERÐ. Jei. Það er nebblega staðfest að við leigjum bát í viku í lok ágúst/byrjun september. Við siglum eftir Canal du Midi sem er skipaskurður sem liggur frá Lyon til Toulouse. Vinir hans Jonathans koma með okkur og ég er viss um að þetta verður alveg frábært. Berglind Rós hefur leigt bát og siglt um þessar slóðir og gaf því góð meðmæli.

Nú er Hanna panna pottur og kanna komin til Danmerkur. Með allt sitt hafurtask. Gangi þér vel í Baunalandi. Þar er gott að vera. Hún býr á sama svæði og ég bjó á, rétt hjá Struer og Holstebro. Það væri nú gaman að fara og heimsækja hana einhverntíman. Í leiðinni gæti mmaður kíkt á þessa staði. Plastverksmiðjuna sem kviknaði fimm sinnum í. Símaklefinn sem ég notaði á hverjum sunnudegi til að hringja heim (af því að við vorum ekki með neinn síma - lesist með rödd Magnúsar úr áramótaskaupinu). Garðurinn sem ég fór oft í til að lesa og gefa öndunum í von um að hitta fólk (og hitti á endanum stelpu á mínum aldri sem var bara mjög gaman að spjalla við þangað til hún dró upp VAKT-TURNINN (eða hvað það nú heitir), trúboðablað votta Jehova). Garðurinn sem Einsi, Pétur Maaek, Steini og Gísli tjölduðu í.

Bless í bili,

júlí 20, 2004

Sumir dagar byrja bara betur en aðrir. Sunnudagurinn síðasti er gott dæmi um það. Ég vaknaði um tíu leytið og lá svo bara í rúminu og horfði á Jonathan sofa og söng Morning has broken í huganum (Cat Stevens lagið). Svo loksins vaknaði hann og ég raulaði fyrir hann lagið sem ég var að hugsa um. Hann kyssti mig, fór fram í stofu og setti diskinn á og svo dönsuðum við vangadans í stofunni klukkan hálf ellefu á sunnudagsmorgni á baðsloppunum. Síðan lagaði ég ofurkaffi og við spiluðum ídíót, drukkum kaffi og sleiktum sólina á veröndinni. Namm, ég elska svona daga.

júlí 16, 2004

Veðurspá dagsins: Hægviðri og heiðskýrt. Hiti á bilinu 34-39 stig.

Plan dagsins: Sauma kjól (í höndunum því ég á enn eftir að næla mér í saumavél einhversstaðar), klára að útbúa allt sem þarf að fara á pósthús, dútla mér í garðinum, og svo þegar hitinn verður orðinn óbærilegur - fara í loftkælda búð og kaupa dót til að búa til Maltesers ís (ég fékk uppskriftina að láni frá Sunnu Guðmunds - takk Sunna. Ég reyndi að þakka fyrir mig á síðunni ykkar en það tókst einhverra hluta ekki).

Konan á horninu ræktar sólblóm í garðinum sínum. Þau eru risastór, örugglega 2 metrar á hæð. Mig langar í svoleiðis.

júlí 15, 2004

Og b.t.w. ég er búin að bæta við tveimur tenglum. Viðbæturnar eru Jódís Skúla og Sirrý.

Til hamingju með þjóðhátíðardaginn í gær Fransmenn allra landa. Ég fór ekki á flugeldasýninguna sem var í Montpellier enda sá ég eina ansi magnaða hér í Villeneuve að kvöldi 13. Mun flottari en kínverjarnir tveir sem var skotið upp í Montpellier á gamlárskvöld 2002.

Hér hefur staðið yfir bæjarhátíð, útiball öll kvöld og mikið um að vera. Hálfgerð verslunarmannahelgarstemning með öllu tilheyrandi. Bæjarhátíðin stóð í viku og lauk í gærkvöldi. Í þetta skipti stóð hátíðin óvenju lengi því í ár er 30 ára afmæli “nefndarinnar” sem skipuleggur allar uppákomur og skemmtanir á vegum bæjarins. Svona eins konar Þorrablótsnefnd sem starfar allt árið.

Ég nenni ekki að skrifa ritgerðina og er bara að leika mér á línuskautum og úti að hjóla í staðin. Hér er allt við sama heygarðshornið. Steikjandi hiti og sólskin og blómin blómstra og blómstra.

Ég er að fara til Englands í byrjun ágúst í tvær vikur. Jonathan þarf að fara vegna vinnunnar og þá fæ ég að fljóta með eins og venjulega.

Þangað til næst,

júlí 12, 2004

Þetta er sent af háskólanetsvæðinu. Kannski slepp ég þá við þetta
auglýsingadrasl.

Hvað er þetta með "fyrirneðanstrikið"

prufa

Bara að prófa að blogga gegn um ímeil.

_________________________________________________________________
The new MSN 8: smart spam protection and 2 months FREE*
http://join.msn.com/?page=features/junkmail