desember 24, 2004

Hér er allt að verða tilbúið, er að fara að sjóða rauðkálið og rísalamandið er komið í ísskápinn. Ég á bara eftir að ryksuga eldsnöggt yfir stofuna og fara í sturtu. Hér er 20 stiga hiti og glampandi sólskin, gaman að því :) Ég fer bara og sit fyrir framan opinn frystiskápinn og ímynda mér að ég sé að bera út jólakortin þangað til fingurnir eru við það að detta af mér og þá hlýt ég að komast í rétta jólaskapið. Svo er bara að loka öllum gluggahlerum svo sólin komist ekki inn í húsið og þá er þetta nú næstum því eins og heima. Sakna fjölskyldunnar samt alveg óskaplega mikið, vona að gjafirnar hafi skilað sér til þeirra á endanum. Annál ætla ég ekki að lofa því ég efast um að ég nenni að skrifa svoleiðis.

Og að lokum:

Gleðileg jól til ykkar allra og farsælt komandi ár. Verið nú dugleg að borða svo þið verðið öll feit og falleg eins og ég ;) Jólakveðjur frá Jólatani og jólagrænni baun í bumbu.

Elska ykkur öll,
Svandís

desember 19, 2004

Hvort á ég að fara í sólbað eða að setja upp jólaskraut? Hmm, kannski ég baki bara köku.

desember 17, 2004

Til hamingju Heiða með að vera búin í prófum og góða skemmtun á próflokadjammi í kvöld.

Ég fór í sónar í dag og það var svo gaman. Krílið litla hamaðist og lét öllum illum látum og var sko ekki til í að láta taka af sér neinar myndir eða láta skoða nein líffæri enda tók skoðunin miklu lengri tíma en venjulega. Læknirinn sagði að barnið hreyfði sig óvenju mikið. Við fengum nú samt nokkrar, þar á meðal þrívíddarmyndir sem er ekkert smá frábært. Og það hafðist á endanum að skoða öll líffæri og það kom allt vel út úr því og allt á réttum stað og af réttri stærð (your baby has two eyes, that's normal sagði læknirinn meðal annars). Barnið fær nóg að borða og nóg súrefni og miðað við þykktina á einhverju sem var mælt er ég mjög ólíkleg til að fæða fyrir tímann. Við vildum ekki fá að vita kynið en læknirinn þurfti nú samt að athuga kynfæri barnsins þannig að við lokuðum augunum á meðan. Mikið rosalega var erfitt að kíkja ekki. En ég stóðst freistinguna (og Jonathan líka eftir því sem ég best veit) og þegar læknirinn var búinn að skoða sagði hann á sinni ofurlítið bjöguðu ensku: Your baby has normal sex ;) Það er nú gott að vita.

Ég á ekki skanna og hef ekki aðgang að slíkum en ég tók myndir af sónarmyndunum og er búin að setja þær á netið ásamt fyrstu bumbumyndunum sem voru teknar í dag. Gjörið svo vel

ble ble,

desember 15, 2004

Til hamingju með afmælið Björn Óðinn.

Það rignir eins og hellt sé úr mörgum mörgum fötum (svona regnfötum sko...) og þá finnst mér gaman. Þegar rignir þá getur sólin nefnilega ekki skinið og þá ná skýin niður í húsþök og yfir öllu hvílir skammdegisdrungi. Og ég fer í jólaskap. Ég get nú heldur ekki annað því í gær kom til mín kassi fullur af kræsingum og nú á ég hamborgarhrygg, hangikjöt og laufabrauð og meira að segja eina maltdós í ísskápnum. Og fuuuuuuullt af jóladiskum. Takk elsku mamma og pabbi. Þið eruð sko langbest í heimi.

En talandi um regnföt, ég ætti kannski að bjarga leppunum af þvottasnúrunni og henda þeim í vindingu í þvottavélinni áður en allt fer bókstaflega á kaf... Ég kem rétt strax aftur.

Verkefni dagsins í dag er að baka spesíur, piparkökur og vanilluhringi. Hjónasælu og súkkulaðibitaköku (og kannski marmaraköku). Og brjóta saman þvottafjallið sem hefur tekið sér bólfestu í stofunni minni. Af hverju hefur aldrei verið fundin upp þvottasamanbrjótur? Ég myndi sko vera til í að borga stórar fjárhæðir fyrir svoleiðis maskínu.

Af krílinu er það helst að frétta að því finnst gaman að sparka í móður sína og hamast við það látlaust allan daginn alla daga. Lætin hófust upp úr miðjum nóvember. Þetta er alveg ótrúleg tilfinning - Bara með því skemmtilegra sem ég veit. Krílið er þó ekki eins spennt fyrir því að sparka í föður sinn en lét þó til leiðast einu sinni og (7. des) . Síðasta sónarskoðunin er núna á föstudaginn en þá verð ég búin með akkúrat 22 vikur. Ég er að vona að myndirnar sem við fáum verði skýrar og góðar svo ég geti látið skanna þær inn og sett á netið. Það stendur einnig til að koma fyrstu bumbumynd á netið innan tíðar. Annars er bumban bara lítil og pen ennþá en stækkar samt jafnt og þétt. Mittismálið er orðið rúmir 90 cm.

Bless í bili og kveðja frá Jólatani,

desember 14, 2004

funny
Congratulations!! You're Mr. Funny! ;)


Which of the Mr. Men characters are you?
brought to you by Quizilla


Ég fyndin - það var þá helst. Ekki beinlínis þekkt fyrir að vera brandarakall ;)


Blogg hefur legið niðri sökum bílleysis (sem leiddi til þess að Jonathan hefur unnið að heiman í tvær vikur rúmar sem aftur leiðir til þess að ég kemst ekkert á netið yfir daginn og nenni yfirleitt ekki að netast á kvöldin). Úr því skal bætt um leið og eldhúsið er orðið spottless og smákökudegin komin í ísskápinn. En fyrst þarf ég að fara í búð.

Ble ble,