nóvember 24, 2004

Jamm og já

Nú er rétt rúm vika í að meðgangan sé hálfnuð. Tíminn líður allt of hratt. Ég fór til El Doctore í gær og allt í góðu. Framhaldið er svo blóðprufa og svoleiðis í byrjun desember, síðasti sónarinn rétt fyrir jól og svo aftur til læknis milli jóla og nýárs. Voða gaman allt saman.

Ég hlakka til jólanna og get ekki beðið eftir að fá sendinguna frá mömmu og Heiðu :) Suðusúkkulaði svo ég geti bakað spesíur og NAMMI í öðru veldi að ógleymdu hangikjöti og hamborgarhrygg. Kjams. Ég þarf samt örugglega að kaupa hengilása á skápana sem ég geymi góssið í og láta Jonathan geyma lyklana svo það verði ekki bara allt búið um jólin. Einhverntíman ætla ég líka að eignast fleiri íslenska jólageisladiska. Þessi eini sem ég á er að verða dáldið þreyttur...

Mig langar í snjó snjó snjó.

Bless í bili,

nóvember 18, 2004

Ég er farin að finna fyrir Krílfríði hreyfa sig :) Það er ótrúlega skemmtilegt.

Og þetta hér er alveg frábært

http://www.jol.is/leikir/leikir.php?id=81&

Í boði Berglindar systur því hún benti mér á þetta. Ég öfundaði hana ekkert smá af því að hún átti svona en ég átti brúna tvöfalda Donkey Kong tölvuspilið.

Adios í bili...

nóvember 16, 2004

Take the quiz: "Which American City Are You?"

New York
You're competative, you like to take it straight to the fight. You gotta have it all or die trying.

nóvember 10, 2004

Jæja.
Niðurstöðurnar úr blóð- og þvagprufum komu í morgun og þar virðist allt vera í besta lagi en ég þarf samt að fara í blóð- og þvagprufu í hverjum mánuði. Ég er sumsé ekki með HIV, syphilis (eða hvernig sem það er nú skrifað) eða lifrarbólgu, og blóðið mitt er ekki rhesus negative. Ég er semsagt í "sjaldgæfa" blóðflokkinum, O+. Ég er komin með smá bumbu. Jibbí. Alla vega alveg hætt að geta hneppt að mér fyriróléttubuxunum mínum en ég er hins vegar ekki farin að finna fyrir hreyfingum ennþá (reyndar ímynda ég mér að ég finni hreyfingar eins og loftbólur en ég veit ekki hvort það eru raunverulegar hreyfingar eða bara prump á ferðalagi...)

Ég fer að öllum líkindum ekki til Englands þannig að ég verð bara grasekkja á meðan Jonathan fer þangað til að kenna öðru fólki að vinna vinnuna sína svo hann hafi sjálfur minna að gera og geti tekið við verkefnum frá yfirmanni sínum. Það er bara gott mál og vonandi fær hann bara aðra stöðuhækkun í kjölfarið.

Mig langar í BigMac og franskar.

Bless í bili,

nóvember 08, 2004

Já já já
svei mér þá
förum austur á stóru tá... mælti eitt sinn spakur maður

Ég fór í blóðprufur á laugardaginn. Ég hélt að maðurinn ætlaði bara aldrei að hætta að dæla úr mér blóðinu. Ég held hann hafi fyllt 4 glös á endanum. Það er verið að athuga með hugsanlega litningagalla hjá fóstrinu, lifrarbólgu C, HIV, hvort blóðið mitt sé nokkuð Rhesus negative og svo eitthvað fleira sem hvorugt okkar skildi. Í þetta skiptið ætla ég að spyrja að því í hvaða blóðflokki ég er. Hef aldrei haft hugsun á því. Ég fór reyndar að hugsa til baka og komst að þeirri niðurstöðu að ég hef ekki farið í blóðprufu eða fengið sprautu af neinu tagi (fyrir utan deyfingar hjá tannlækni) síðan ég fór í síðustu skyldusprautuna í grunnskóla.

Annars var helgin róleg. Jonathan var að vinna meira og minna alla helgina svo ég spilaði bara nýja tölvuspilið mitt. Það er stýripinni sem maður tengir við sjónvarp og er með packman og Rally-X og fleiri gömlum góðum leikjum úr stóru leikjakössunum. Minningarnar báru mig í Gunnakaffi á tjarnarbrautinni - og Nonni Hauks - packman hetja æsku minnar.

Ég er kannski að fara til Englands. Það veltur allt á því hvort það verður af vinnuferð Jonathans og hvort Dell vill leyfa mér að koma með. Það er hins vegar svo týbískt að ég verð þar akkúrat í vikunni á undan Nönnu og Jóni Geir, frá 14. nóv til 20. nóv. Alveg er það nú dæmigert.

Eníhú, sí jú leiter...

nóvember 05, 2004

Já, hún bloggaði. Ótrúlegt en satt.

Nú er haustið komið hérna (loksins) og laufin á trjánum farin að fá á sig haustlitina. Þrátt fyrir það fer hitinn hérna nú samt sjaldan niður fyrir 12 gráðurnar. Hér einkennist haustið af rigningu, rigningu og rigningu eins og hellt sé úr fötu. Maður verður holdvotur af því einu að skjótast frá útidyrunum og inn í bíl. Vesalingunum hér finnst voða kalt alltaf og klæða sig í þykkar úlpur en mér finnst þetta bara ágætt. Það er allt of heitt hérna á sumrin til að það geti kallast þægilegt.

Það er því mikið að gerast í meðgöngu- og fæðingarundirbúningsstússi hjá okkur núna enda að mörgu að hyggja. Þetta er allt svo flókið hérna. Ég þarf að flytja sjúkrasamlagstrygginguna mína til Frakklands því annars myndi sjálfsagt kosta okkur aleiguna ef eitthvað kæmi uppá og ég þyrfti að fara á sjúkrahús og jafnvel ekki víst að ég gæti fengið sjúkrahúsvist. Það á því eftir að koma í ljós hvar ég fæði barnið. Mig langar náttúrlega miklu meira til að fæða heima en ef það reynist nauðsynlegt fyrir mig að flytja lögheimilið mitt og allt sem því fylgir hingað þá fæði ég hér. Ef svo fer þá ætlar mamma að koma til mín og vera hjá mér. Það breytir öllu. Ef ég hins vegar fæði á Íslandi þá kem ég heim um miðjan mars og verð þangað til barnið er u.þ.b. tveggja vikna gamalt.

Ég hef verið mjög heppin og ekki fundið fyrir miklum óléttueinkennum. Bara ofurþreyta í byrjun og svo tilfinningasemi og lítið annað. A.m.k. ekkert sem tekur því að tala um. Að öðru leyti hef ég bara verið mjög hraust og barnið dafnar vel. Enn sem komið er sést ekki á mér að ég sé ófrísk. Ég fór í þriðju sónarskoðun í fyrradag og Jonathan kom með mér. Það var alveg yndislegt. Litla krílið spriklaði og veifaði með öllum pínulitlu puttunum sínum og læknirinn sem skoðaði okkur sagði að allt liti mjög vel út. Barnið er núna 10,5 cm. frá rófubeini og upp úr og í dag er ég gengin akkúrat 16. vikur. Jonathan var svo hrærður þegar við komum út úr skoðuninni og kyssti mig og faðmaði og knúsaði á alla kanta. Hann bara gat ekki slitið af mér augun (sem er eins gott, gæti verið svolítið sárt...) Á morgun þarf ég svo að fara í um það bil milljón blóðprufur og þvagprufur og síðan er næsta skoðun hjá kvensjúkdómalækni þann 16. nóvember.

Af öðrum vígstöðvum er bara ágætt að frétta. Lífið gengur sinn vanagang. Jonathan vinnur og vinnur. Ég sinni heimilinu (les. horfi á sjónvarpið og spila tölvuleiki) og hekla og prjóna handa frumburðinum. Ég er aðeins byrjuð að kaupa jólagjafir því ég þarf að senda þær heim þetta árið. Ég er strax farin að hlakka til jólanna þó þau verði örugglega dálítið skrýtin þetta árið. Við ætlum að eyða jólunum hér og verðum bara tvö ein. Ég held það verði samt bara gaman og rómantískt. Ég fæ mömmu örugglega til að senda mér bita af hangikjöti og nokkrar laufabrauðskökur svo mér finnist meira jólalegt.

Ég varð ósköp stolt í gær þegar Ísland kom í fréttum hér úti vegna eldgossins í Vatnajökli. Það þarf lítið til að vekja í manni þjóðarstoltið. Ég elska eldgos og verð alltaf þvílíkt spennt þegar þau brjótast fram. Ég er að verða hinn óþolandi Íslendingur því mér finnst merkilegra og merkilegra að vera Íslendingur eftir því sem ég er lengur hérna úti. Ég þreytist aldrei á að segja fólki sögur að heiman og tala mikið um að hvergi sé betra að vera og blablablablabla. Aumingja þeir sem þurfa að hlusta. Ég vona að einn góðan veðurdag geti ég sannfært Jonathan um að þar sé best að vera svo hann vilji flytja þangað með mér en ég verð ábyggilega að bíða eftir því í að minnsta kosti 10 ár.

Að lokum ástarþakkir fyrir bréfið og smekkinn Heitiég. Þú ert svo mikið yndi.

Bless í bili,