febrúar 04, 2008

Já, við þurftum heldur betur að venjast snjónum fljótt. Það vill til að hann venst vel og börnin elska að leika sér úti. Meira að segja þó hríðin lemji þau í andlitið. Við erum búin að fara á snjóþotu líka og það sló heldur betur í gegn. Þór skríkti meira og minna allan tímann.

Ég er afar þakklát viðbrögðum Egilsstaðabúa við auglýsingunni hennar mömmu (hún auglýsti eftir notuðum leikföngum í skjánum). Hér biðu okkar margir kassar af leikföngum, bókum og púslum. Baby born með alls kyns fylgihlutum og meira að segja trönur svo það ætti aldeilis að vera hægt að skapa list. Ekki nóg með það, við fengum líka tvö barnarúm, rúmfatnað og sængur fyrir börnin og svo var mamma að dröslast með Þór í snjónum, snjóþotulaus, og hitti þá konu sem bauð snjóþotu til láns og dreif svo bara í að finna hana í geymslunni. Ekkert mál. Mér þykir alveg ótrúlega vænt um þetta allt saman.

Leiðbeinandamál eru að verða komin á hreint og þá verður nú vonandi hægt að fara að ganga frá ritgerðarefni og svo byrja á vinnunni sjálfri. Mikið ótrúlega verður gott þegar þetta verður búið.

Og síðast en ekki síst, Sigga Lára og Árni, til hamingju með litla kút :)