september 29, 2005

Já - litla daman var skírð á Íslandi af séra Cecil Haraldssyni presti á Seyðisfirði. Athöfnin fór fram í stofunni heima hjá mömmu og pabba að viðstaddri familíunni allri að Linda undanskildum (hann var að vinna en gat samt komið í kaffið seinnipartinn). Þetta var yndislega lítil og falleg athöfn þrátt fyrir að Heiða hafi öskrað alla athöfnina (og hætti því að sjálfsögðu um leið og skírnin var búin). Myndaalbúm frá skírninni komið í myndaalbúmið mitt (sjá hlekk hér til vinstri)



Og fór hún í sparikjólinn og mátaði ótrúlega sætu íþróttaskóna sem hún fékk í skírnargjöf :)




Meira um Heiðu Rakel - við vorum í fimm mánaða skoðun í fyrradag og mælist hún nú 67,5 cm. og 7.390 gr. Var við fæðingu 50 cm. og 3.800 gr. Hún er við hestaheilsu þó svo hún mætti alveg þyngjast meira. Hún hefur tilhneigingu til að draga hægri fótinn upp og sperra þann vinstri og sökum þess vill læknirinn hennar að við förum með hana í sónar til að athuga hvort ekki sé allt í lagi. Veit svo sem ekkert hvað gæti verið að en vona bara að þetta sé ekki neitt.

Við erum að fara til Englands og munum halda til hjá foreldrum Jonathans (því miður verður Jonathan ekki með okkur þannig að óskir um velfarnað og geðbólguleysi eru vel þegnar). Ég mun nú reyna að blogga eitthvað þaðan - gætu alveg orðið til einhverjar skondnar sögur :)

Jamm og já,
ble ble ble.

september 28, 2005

Klukkidí klukk

1. Ég drekk ískalda mjólk með poppi og veit fátt betra (nema ef vera kynni gult strumpaópal með mjólk).

2. Þegar ég hengi upp þvott þarf ég helst að flokka þvottinn eftir tegund og svo klemmurnar eftir lit. Svo hengi ég allar buxur í röð með bláum klemmum, peysur með gulum, boli með grænum o.s.frv. Verst er þegar tiltekinn klemmulitur endist ekki á tegundina sem verið er að hengja upp og ég þarf að skipta um lit í miðju kafi. Dæs.

3. Mér er algjörlega fyrirmunað að læra muninn á hægri og vinsti sem kemur sér einstaklega illa þar sem maðurinn minn er álíka ratvís og gullfiskur og því þarf ég alltaf að leiðbeina honum þegar við erum að fara eitthvað... Beygðu til hægri - nei ég meina vinstri - nei ég meina hægri - æ, þangað (og bendi) en þá er það yfirleitt orðið of seint og við komin einhverja bölvaða vitleysu.

4. Ég get ekki tannburstað mig nema ýta tannkreminu ofan í tannburstann fyrst með tungunni og helst þarf ég að tylla öðrum fætinum á baðkersbrúnina eða setjast niður á meðan burstunin fer fram.

5. Mér finnst fátt ógeðslegra en mör og mann enn hljóðið sem heyrist þegar teygist á storknuðum himnunum þegar maður handleikur hann. Þegar mamma tók slátur hér í den var ég látinn skera mörinn (því ég þverneitaði að sauma vambir og Berglind var nógu hugrökk til að gera það). Hann skar ég með fýlusvip, klemmu á nefinu og gúmmíhanska.

Og henenú. Þar hafiði það.

(og fyrir Heiðu systur - auka klukk ætem. Ég hef hallærislegasta kæk í heimi sem er að krækja nöglunum á fingrunum saman þannig að "naglabökin" snúa saman og hendurnar á mér mynda eins konar öfugt s. SMART)

Ég klukka Snærúnu og Heiðu og Mömmu mína sem er með leyniblogg ;)

ble ble ble,

Ég rembist og rembist en enn sem komið er hafa mér bara dottið í hug tvær staðreyndir um mig til að varpa fram. Þetta hlýtur að hafast á endanum?

Ég verð alltaf jafn hissa á því hvað ég á marga góða og trausta vini og yndislega fjölskyldu. Takk öll.

Ble ble ble.

september 26, 2005

Kona situr á stól og starir með fjarrænu augnaráði út í loftið. Það er myrkur. Allt í einu er eins og hún heyri eitthvað - hún lyftir höfðinu og horfir í kring um sig en sér ekkert. Það er myrkur. SVAAAAANDÍS heyrist úti í nóttinni og flóðljósin kvikna.....

Ég er ekki alveg týnd og tröllum gefin og er um það bil að ná að klóra mig upp á yfirborðið aftur. Brjóstagjöfin er búin að vera erfið og það er erfitt að vera aleinn í útlöndum (snökt snökt) þegar maður er að takast á við þetta nýja stóra hlutverk að vera foreldri. Þess vegna hef ég ekki verið upp á mitt besta undanfarið og ég hef ekki haft nokkurn skapaðan hlut að skrifa um, að minnsta kosti ekkert sem gaman hefði verið að lesa. Sömu ástæður liggja fyrir yfirgengilegu ófélagslyndi mínu í síðustu Íslandsheimsókn minni, stundum hefur maður bara alls ekkert til málanna að leggja og það að hitta fólk er manni erfitt. Ég vona að mínir sönnu vinir fyrirgefi mér það.

Fleiri verða orðin ekki í þetta skiptið. Klukki verður svarað við annað tækifæri þar sem ég er með lítinn hjálpara í fanginu sem er ótrúlega lunkin við að ýta á Ctrl og örvatakkana, bæði í einu og þar með eyða öllu sem ég skrifa.

Frá Heiðu Rachel: .v,k l.4a3læmv45, y re , 4vmnmwvvvvvvvvvvmfs þ, . jk, hm gunm nmmmmmmmmmmmmm mn n nchv nmbknv bnm, y npmn
Hún er greinilega ekki hrifin af sérhjóðum.

Ble ble ble,

september 02, 2005

Ósköp er orðið dimmt eitthvað. Hver slökkti ljósið?

Kem aftur þegar fer að birta.