febrúar 28, 2007

Meira jóla :)

Smá jóla fyrir familíuna. Meira væntanlegt.
febrúar 22, 2007

Góð speki sem ég stal frá spakra manna landi, barnalandi. Mér finnst talsvert vit í þessu :)

"Er þetta eitthvað sem ég á eftir að hlæja að eftir nokkur ár? Get ég þá ekki alveg eins hlegið að því bara núna "

ble ble ble,

febrúar 21, 2007

Jæja, Þór sefur og Heiða í baði. Stund milli stríða. Sérlega ánægjulegra stríða.

Best að byrja á því að leiðrétta dagsetningu búsetuendurskoðunar en hún mun fara fram haust 2009, ekki 2010. Það er nú ekkert svo voðalega langt þangað til.

Ég ætla að reyna að komast á bókhaldsnámskeið í vor svona til að ná tökum á orðaforða og vinnulagi hér. Það ætti ekki að vera svo voðalega strembið þar sem bókhaldslög hér eru mjög svipuð og á Íslandi. Stefnan er svo tekin á vinnumarkaðinn einhverntíman milli hausts og jóla. Við ætlum því að flytja í stærra hús og fá okkur auperu þegar líður á árið. Það er eina leiðin til þess að við höfum efni á því að ég fari að vinna. Ég man ekki eftir fleiru sem er í gangi eins og er. Ekki sérstaklega margt að frétta. Nema kannski að ég er ennþá 80 kíló. Það grennir mig ekki að vera með barn á brjósti og ég nenni ekki í sérstaka megrun og mér er eiginlega alveg sama. Mig langar alla vega meira í nammi og súkkulaðiköku en að vera mjó eins og er. Það breytist nú örugglega bráðum. Nema ég verði ólétt aftur, hehe.

Barnafréttir:

Þór er orðinn 6 mánaða og er því farinn að smakka smá graut. Hann fær ca 50 ml. af graut á kvöldin. Í raun þyrfti hann ekki að fá neinn graut strax, hann virðist fá alveg nóg úr móðurmjólkinni en það er ágætt að byrja að venja hann aðeins við. Við förum bara hægt í sakirnar. Nú getur hann farið að vera til vandræða þar sem hann er búinn að fatta hvernig maður veltir sér af bakinu á magann og langt síðan hann byrjaði að velta sér af maganum á bakið. Því er ekkert í vegi fyrir því að hann byrji að rúlla sér út um allt og gera prakkarastrik.

Heiða verður bráðum tveggja, bara tveir mánuðir í það. Ég trúi því varla. Hún kom mér á óvart rétt fyrir jólin með því að kunna tvo bókstafi. Hún elskar að lesa og láta stafa fyrir sig og því kannski ekkert skrýtið að hún læri stafina. Núna kann hún sex stafi, A, E, O, S, H og M. Ég hef ekki nennt að gá hvort hægt er að búa til eitt orð sem inniheldur alla þessa stafi og enga aðra. Hún er voða dugleg að fara á koppinn og finnst mikið sport að fá að vera bleyjulaus. Hún segir þá yfirleitt alltaf til en oft aðeins of seint eða um leið og hún pissar en finnst hræðilega óþægilegt að vera pissublaut. Nú er bara spurning um að velja dagsetningu til að hefja koppaþjálfun af alvöru.
Hún er farin að tala alveg helling, segir 4-5 orða setningar og uppáhalds orðin mín eru ibbiddi (ísbjörn), nuddu (rúsína) og aúa (selur). Önnur orð segir hún misjafnlega vel og sum alveg rétt. Hún segir voða fínt S, bara pínu "S"mælt. Hún bræddi mig alveg þegar ég var að fara með hana í rúmið um daginn. Hún vildi ekki að ég færi svo hún leit á mig með undurblíðu augnaráði og sagði mamma hadda litlu heddi. Hvernig gat ég sagt nei. Ég sat og hélt í hendina á henni þar til hún sofnaði. Um daginn fór pabbi hennar með hana að lúlla og lagði sig í sófanum inni hjá henni. Þegar hún kom niður eftir lúrinn sagði hún við mig: pabbi lúlla húffa (sófa) og gerði svo svona hrjótihljóð, það var fyndið. Hún er búin að fatta hvernig maður prílar upp úr rimlarúminu þannig að við ætlum bara að taka hliðina úr fljótlega. Nú getur hún loksins sjálf komist upp úr rúminu sínu og getur því farið að skríða uppí til mín þegar hún vaknar um miðja nótt. Ég er búin að hlakka til þeirrar stundar svo lengi. Það er svo gott að kúra hjá henni. Veit samt ekki alveg hvernig ég ætla að koma okkur öllum fyrir í 140 cm. breiðu rúmi (Þór sefur sko alltaf uppí hjá okkur).

En nú er stundin búin og heyrist glaðlegt hjal frá Þór. Best að fara að tala við hann.

Hugsanir mínar og bænir eru hjá þeim sem líða þjáningar og eiga bágt.

Ble ble ble,

Ég hef alið nöðru við brjóst mér. Meira skal ekki um það sagt.

febrúar 15, 2007

Hvað í andskotanum er að mönnum sem nauðga og drepa tveggja ára gamla stúlku? Ég græt þegar ég heyri svona. Þvílík grimmd.

febrúar 14, 2007

Þessar eru teknar í dag. Gleðilegan valentínusardag.febrúar 13, 2007

Eitthvað dróst nú drátturinn á sigurvegara í getrauninni en hér með verður dregið.

Eftirtaldir tóku þátt:
Ásta Gísla
Berglind systir
Snærún
Sigga Dís
Heiða systir x 2
Sigga Lára x 2
Heiða Skúla x 2
Þeir sem giskuðu tvisvar fá nafnið sitt tvisvar í pottinn.

Og sigurvegarinn er... tromm tromm tromm... Ásta Gísladóttir. Hún mun fá myndir í venjulegum pósti í verðlaun. Til hamingju Ásta ;)

Í öðrum fréttum er allt ljómandi gott. Við erum búin að setja tíma á hvenær samningaviðræður um Íslandsflutninga hefjast og mun það verða haust 2010. Þá verður Heiða Rachel fjögurra ára og ætti skv. breskum reglum að byrja í skóla. Ég hefði náttúrlega helst viljað flytja strax því mig langar að setja Heiðu á leikskóla og Þór þegar hann verður aðeins eldri. Leikskólapláss fyrir þau bæði myndi kosta um 23.000 krónur á mánuði í Reykjavík en hérna myndi kosta u.þ.b. 240.000 krónur fyrir þau á mánuði. Það er reyndar fyrir utan niðurgreiðslu sem er 109 pund á ári og gróflega reiknast sem þúsundkall á mánuði. Það munar náttúrlega öllu ekki satt.

Á þriðjudagskvöldið var var veðrið aðalfréttin á öllum stöðvum, varað við ofsaveðri. Spáð var fyrir um 2-5 sentimetra af jafnföllnum snjó. Þá um kvöldið tilkynntu fjöldamargir skólar að skólahaldi yrði aflýst og á endanum var því aflýst í 90% skóla í sýslunni. Ég gat nú ekki annað en glott út í annað a.m.k. þegar ég horfði á undurfallega hundslappadrífuna sem stóð yfir í tvo klukkutíma. Veðrið var vægast sagt dásamlegt, gola og blíðviðri í alla staði. Börnin nutu þess að fá frí og léku sér í snjónum sem er afar sjaldséður hér. Snjórinn hefur svo sannarlega meiri áhrif á samfélagið hér en hann gerir heima.

Það er gaman í þvottabala:

Hætt í bili, barn grætur.

ble ble ble.

febrúar 06, 2007

Jamm og já. Meiri myndir. Mér finnst það svo gaman.


febrúar 05, 2007

Lítil rúsínuknús.
Þau voru vigtuð í gær og Þór er 9 kíló og Heiða er 13 kíló. Veit ekki hvað þau eru löng en ég veit að mér finnast þau sætust í heimi ;)

febrúar 03, 2007

Lausnin: Allt snýst þetta um að enda með eins margar eins kúlnaseríur og hægt er. Það er sumsé það sem verið er að hámarka. Þar af leiðandi verður fyrst að borða tvær gular kúlur og eina bláa. Þessa bláu verður að borða á undan þeim gulu því hún er ein. Þá er eftir hámarks fjöldi kúlna úr þessu úrtaki sem mynda seríur. Síðan eru seríurnar borðaðar hvor fyrir sig og skiptir í raun ekki máli í hvaða röð litirnir eru borðaðir en þó verður að borða báðar seríurnar eins. Stundum væru seríurnar líka borðaðar allar í einu (og sjálfsagt er það nú algengast þar sem ég er svo ótrúlega gráðug).

Það leiðir til þessa: Blá, Gul, Gul, (gul/rauð/græn), (gul/rauð/græn).

Þar sem enginn var með rétta svarið þá verður nafn vinningshafa dregið úr hatti og verða myndirnar settar í póst í næstu viku.

Látum nú þessari geðveiki lokið og vonandi gleyma allir þessu sem fyrst. Þið eruð öll dásamleg.