ágúst 14, 2003

Bara fyrir ykkur sem eruð í sömu sporum og ég - hér er lagidót til að taka vírusinn í burtu og svo er hægt að fá plástur hjá microsoftdottcomm

ágúst 13, 2003

Jæja, þá er tölvan mín orðin vírusuð og ég á í stökustu vandræðum með að ná mér í uppfærslur á windows svo ég geti sett inn plástur til að laga það sem vírusinn skemmdi (eða eitthvað þannig, ég kann nú ekki einu sinni almennilega að tala um þetta).

Það er orðið opinbert frá og með hádegi dagsins í dag Frakkinn sem ætlaði að hjálpa mér í háskólanum hér er kúkur og svikari en ég fæ að taka prófin í sendiráðinu í París. Það er í sjálfu sér ágætt, en ég var hálfpartin að vona að þetta með að taka prófin hér rynni allt út í sandinn og ég "neyddist" til að koma heim til að taka þau. Mig langar svooo að koma heim. Mér finnst hræðilegt að missa af brúðkaupinu þeirra Nönnu og Jóns Geirs. Ég missti af brúðkaupi bróður míns út af einhverju heimskulegu prófi í þjóðhagfræði A sem ég varð að taka og var ekki hægt að færa fyrir mig (af því að það hentaði víst hinum 499 sem voru að taka kúrsinn að taka prófið þá) og svo á brúðkaupsdag Nönnu og Jóns verð ég í prófi í Þjóðhagfræði B sem, viti menn, er kenndur af sama manni. Ég held hann hafi einstaka innsýn í hvað mig langar EKKI til að vera að gera á brúðkaupsdögum fjölskyldu og vina. Annars ætla ég ekki að bölva honum frekar. Hann er yfir höfuð afskaplega hjálpsamur kennari og vill nemendum sínum aðeins það besta sem er ekki hægt að segja um alla kennara, því miður. Ég vildi óska að ég ætti fullt fullt af péning svo ég gæti bara samt komið heim til að vera við brúðkaupið. Ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil ég vil - oh það virðist ekki ætla að virka að fá frekjukast :(

Annars er Jónatan bara fárveikur. Hann er með næstum 40 stiga hita og liggur bara í einhverju móki. Ég veit ekkert hvað er að honum. Sjálfsagt bara einhver pest. Annars grunar mig að þetta sé vökvaskortur. Hann fór út að hlaupa í gær, ég treysti mér ekki til að fara að hlaupa, fer nú yfirleitt ekki ef hitinn er meiri en 35 gráður. Hann hins vegar ákvað að drífa sig og svo var hann orðinn veikur í morgun. Ég veit reyndar ekki hvernig vökvaskortur lýsir sér en þetta er alla vega mín kenning.

Ég hef ekki getað skoðað kommentin mín nýlega því vírusinn leyfir það ekki. Þess vegna hef ég ekki svarað neinu sem þar hefur komið fram. Ég er að sækja mér vírusvarnarforrit (já ég veit, ég er algjör auli að hafa ekki verið með svoleiðis) og svo þarf ég að reyna að nálgast þessa blessuðu service pakka frá microsoft svo ég geti sett plásturinn inn svo ég geti farið að nota tölvuna mína af einhverju viti aftur.

Svona að lokum, ég verð að deila þessari minningu með ykkur. Ég veit nú ekki alveg af hverju þetta kom allt í einu upp í hugann en alla vega, hér er þetta.
Ég fór á gott djamm einu sinni sem oftar með félögum mínum hjá stúdentaleikhúsinu. Ætli þetta hafi ekki verið á meðan við vorum að sýna Unga menn á uppleið eftir hana SigguLáru. Okkur fannst afskaplega góð hugmynd að halda partý eftir að við höfðum verið niðri í bæ og fórum þess vegna heim til vinar eins af stúdentaleikhússhópnum. Það var svo sem allt í lagi - allir í góðum fílíng, ég fór að leika mér í playstation ásamt fleirum en einn drengurinn hafði gríðarlega þörf fyrir að dansa svo hann skellti diskói á fóninn og stillti HÁTT. Svo dansaði hann og dansaði og við spiluðum og spiluðum playstation og húseigandi ásamt tveimur stúlkum (bara að taka það fram svo það valdi nú örugglega engum misskilningi, ég var ekki önnur þeirra) fann hjá sér gífurlega sterka þörf fyrir að fara í bað - öll saman - og ekki nóg með það. Baðvatnið varð að vera rautt. Þau létu renna í bað, sviptu sig klæðum og góðum slatta af rauðum matarlit skutlað samanvið baðvatnið og skelltu sér svo ofaní. Stemningin var ærslafull í stofunni þar sem playstation var í fullum gangi, tónlistin mjög hátt stillt og fólk að dansa á fullu. Stemningin á baðinu hefur án efa verið afar rómantísk, rautt bað og kertaljós. Þetta hélt áfram í dágóða stund og svo hringir dyrasíminn. Við fengum nú vægt sjokk, áttum ekki von á fleira fólki en dyrasíminn hélt bara áfram að hringja og hringja og hringja. Við sáum okkur ekki annað fært en að svara ef það skyldi nú hafa kviknað í húsinu eða eitthvað svo ég greip dyrasímann og sagði: Halló. Dimm karlmannsrödd sagði: Halló, þetta er lögreglan. Getum við fengið að tala við húseigandann. Ég: Hehemm hann er í baði (hvísla til hinna; rekið þau úr baðinu, löggan er hérna). Dimm karlmannsrödd: Hleypið okkur inn strax !!! (fyrir aftan mig heyrist - djö**** kjaftæði, löggan er ekkert hérna - þið þurfið bara að pissa eða eitthvað. Látiði okkur í friði) en tilneydd hleypti ég lögreglunni inn. Og það var óborganleg sjón þegar húsráðandi loksins lufsaðist upp úr baðinu og opnaði baðherbergishurðina á adamsklæðum einum saman. Svipurinn á lögregumönnunum, stelpunum í baðinu, húseiganda (sem hélt reyndar andlitinu ótrúlega vel). Samræður Löggu og húseiganda: Ert þú eigandi hússins? Já (svarar húseigandi í/með fullri reisn og gerði sér held ég ekki grein fyrir á þeirri stundu að matarlitur á það til að lita á manni húðina svo hann var frekar rauður á skrokknum) Kennitala! xxxxxx-xxxx Viljiði gjöra svo vel að lækka í tónlistinni. Nágrannarnir kvörtuðu, það væri kannski ráð að þið færuð bara öll í slakandi bað... Við heyrðum hlátrasköllin frá lögreglumönnunum þegar þeir voru komnir út á götu. Dansfíflið lækkaði í tónlistinni og húseigandi dreif sig aftur í baðið, hinn rólegasti. Ég hef sjaldan hlegið jafn mikið.

Ástarkveðjur,

ágúst 08, 2003

Jæja, nú er ég búin að lesa nýju Harry Potter.

Harry Potter er vælukjói
Snipe á alla mína samúð.

Og hafiði það.

Ég hef sjaldan lesið bók jafn langa bók sem hefði mátt koma fyrir á 50 blaðsíðum.

Svandís, viðskiptafræðingur to be.

Kynþokki

Kynþokki minn náði sögulegu hámarki þegar ég vaknaði í morgun. Eitthvað/einhver andstyggðar skorkvikindi tóku sig til í nótt og bitu mig a.m.k. 10 sinnum á rasskinnunum og tvisvar í andlitið. Viss um að það voru vespur í hefndarhug þar sem ég fann húsin þeirra og Jónatan og Simon tóku þau og brenndu þau.

Arrr
Svandís Sexy

ágúst 06, 2003

Af mbl.is

"Steikjandi hiti olli fjórum dauðsföllum til viðbótar á Spáni í gær, og hafa þá að minnsta kosti 14 látist af völdum hitanna þar undanfarna viku.
Þeir sem létust í gær voru fjórar eldri konur, en að sögn lækna þjáðust þær af öndunarfærasjúkdómum, og gerði hitinn illt verra. Hitinn eykur á skógarelda er brenna á Spáni og Portúgal, þar sem tvö lík fundust í gær, og hafa þá alls ellefu látist af völdum eldanna.

Í Frakklandi hefur hitabylgjan leitt til þess að vatn er skammtað víða. Er meðal annars bannað að vökva garða, þvo bíla og setja vatn í sundlaugar. Hitamet var slegið í Bordeaux á mánudag er hitinn fór í 40,7 gráður yfir hádaginn."


Við höfum því miður fengið okkar skammt af þessu hitafári enda eitt heitasta sumar hér um slóðir í langan tíma. Sumarið í fyrra var algjör draumur miðað við núna. Ég er búin að koma mér upp lærdómsaðstöðu í einu af herbergjunum þar sem ég hef tvær stórar viftur sem blása á mig úr sitt hvorri áttinni. Samt lekur af manni svitinn, viðstöðulaust.

ágúst 03, 2003

Það er komin verslunarmannahelgi. Hvað ætli margir hafi látist í umferðinni, hvað ætli mörgum hafi verið nauðgað, hvað ætli mörg óskilgetin börn fæðist eftir 9 mánuði, hvað ætli hafi verið framin mörg ofbeldisverk og glæpir yfir helgina. Ég hef aldrei þolað fréttir eftir verslunarmannahelgi. Sýnir svo vel hvað við erum öfgafull þjóð.

Allir á Álfaborgarséns.

ágúst 01, 2003

Já, ég baka sko engar vöfflur handa heimilislausu vespunum. Þeim er hins vegar alveg frjálst að halda áfram að borða köngulærnar úr garðinum mínum. Ég sakna þeirra ekkert voðalega mikið.

Annars var okkur boðið í afmælisgrillveislu til Dave's Brown síðasta miðvikudag og ég ákvað að baka handa honum risastóra súkkulaðiköku með jarðarberjum, hindberjum og rjóma. Kakan var bara ótrúlega fín miðað við að ég hef ekki bakað köku í mörg ár. Svo þegar við vorum svona um það bil að leggja af stað í grillið hringir áðurnefnt afmælis"barn" til að láta vita af því að ekkert yrði af grilli, hann fékk nefnilega í mallann greyið. Það var kaka í kvöldmat hjá okkur á miðvikudaginn.

Í gærkvöldi var svo síðasta kvöldið hans Símons hjá okkur. Hann er nefnilega að flytja í dag. Jónatan ákvað að elda Karrý sem var svo sterkt að maður svitnaði við að borða það. Við fengum okkur svo köku í eftirrétt. Í dag er starfsfólk IT deildar DELL að borða afganginn af kökunni. Ég gat amk ekki hugsað mér að borða meira af henni þó svo ég hefði sennilega getað borðað ekkert nema köku í marga daga í viðbót. Svo stór var hún.

Við erum búin að fá frystiskápinn og eldavélina sem við keyptum um daginn. Eldavélin er gas og ofninn líka svo nú þarf að fara að læra að elda uppá nýtt. Frystiskápurinn er svo stór að það væri hæglega hægt að "fela" lík inní honum. Frakkar sem á vegi mínum verða mega passa sig að ergja mig ekki, ellegar þeir enda í frystinum hjá mér. Múhahaha.

Uppúr fjögur erum við Jónatan að fara í Paul Valery, háskólann þar sem ég ætla að reyna að fá að taka prófin, að tala við einhvern kall sem ætlar að sjá um þetta hér. Ég þarf sennilega ekki að taka nema tvö próf í ágúst því allt í einu datt mér í hug að kannski gæti ég notað eitthvað af einingunum sem ég kláraði í tölvunarfræðinni í staðin fyrir valfagið sem ég ætlaði að taka í ágúst. Og það var samþykkt. Tölvunarfræði 1a verður metin inn í viðskiptafræðina í staðin fyrir viðskiptasiðfræði og ég þarf bara að taka tvö próf. Það er bara eitt vandamál (!!! hver sagði það á sínum tíma ?) prófin sem ég þarf að taka eru bæði á laugardegi. Það er eitt að fá Frakka til að gera sér greiða, annað að fá þá til að gera sér greiða í ágúst (því þeir vilja alls ekki vinna í ágúst) svo ekki sé nú talað um hversu erfitt verður að fá þá til að gera sér greiða í ágúst og á laugardegi í ofanálag. Þannig að - nú fer loksins að verða ljóst hvort ég kem heim í ágúst eður ei. Mest af öllu langar mig að koma heim því mig langar svooo að vera í brúðkaupi fangors en þar sem fjárhagsstaða mín er neikvæð og ég er algjörlega háð öðrum um framfærslu þá verð ég víst að sætta mig við það að taka prófin hér. Allt sem ég get gert er að bíða og vona að ég geti ekki fengið að taka prófin hér. Ég læt vita um það um leið og endanleg niðurstaða fæst.

Annars er plan dagsins að lufsast til að læra smá, fara svo í háskólann og tala við þennan mann (þ.e.a.s. Jónatan talar og ég sit bara eins og illa gerður hlutur og brosi og skil ekki orð af því sem fer fram) og svo að hjálpa Símoni að flytja.

Það verður skrýtið að vera aftur bara tvö ein í húsinu. Símon er búinn að búa hérna í næstum ár og er góður og vænn drengur og skemmtilegur félagsskapur, soldið (mikið) latur en honum fyrirgefst það því hann er svo fyndinn og frá því ég kom til Frakklands síðasta vor hefur aðeins liðið ein helgi án þess að við séum með gesti. Nú líður alveg ein og hálf vika þar sem við erum með húsið alveg út af fyrir okkur. Það verður skrýtið en ég hlakka líka óskaplega mikið til. 13 ágúst kemur Gemma og hún gistir í viku. Hún er að fara í brúðkaup 16 ágúst (sem ég er líka boðin í en ég vil ekki fara í. Ef ég fer í eitthvað brúðkaup þann dag verður það brúðkaupið hennar Nönnu :() Gemma fer sumsé aftur 20. ágúst, 22 kemur Nick vinur hans Jonathans og verður í rúma viku og svo strax í byrjun september kemur Claire, vinkona Jonathans og verður í rúma viku. Svo var pabbi minn að nefna það að koma kannski í byrjun eða um miðjan september og þá verður sko gaman. Mikið yrði ég glöð ef elsku besti pabbi minn kæmi að heimsækja mig :):):):):):):) Hann er samt ekkert búinn að ákveða, hann nefndi þetta nú bara svona í framhjáhlaupi, en VÁÁÁ hvað ég yrði glöð.

Ég er búin að vera með svoldið mikla heimþrá undanfarið. Mig langar svo að tala íslensku og skilja fólkið í búðinni og hitta alla vini mína og fjölskylduna og - Æi það er bara svo gott að vera á Íslandi. Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim næst. Og ég er sko búin að heita því að þetta árið ætla ég að skrifa jólakort til allra vina og ættingja fjær og nær og og og og sko ég ætla sko að vera dugleg að hafa samband. Og þá er það orðið opinbert.

Knús til ykkar allra sem nennið að lesa þetta og ástar- og saknaðarkveðjur.

P.s. ég þakka bara fyrir að það eru ekki mörg r í nafninu mínu og ekki hægt að bera það fram með sérstaklega frönskum hreim. Einhverra hluta vegna hafa enskumælandi samt gífurlega tilhneigingu til að segja Svendis sem mér finnst alveg ótrúlega ljótt (samt skárra en Sandy... tíhí)