mars 27, 2005

Gleðilega páska alle sammen - mikið er íslenskt nóa siríus súkkulaði gott. Milljón ástarþakkir til Þórunnar Grétu fyrir að senda mér páskaegg :) Namm namm namm. Málshátturinn er svohljóðandi: Lempinn maður hefur lykil að annars vilja. Ég veit ekki hvað lempinn þýðir en það hljómar mjög vel að hafa lykil að annara vilja. Getur komið sér vel.

8 dagar þar til mamma kemur - 27 dagar þar til Krílfríður kemur. Best að éta meira súkkulaði.

ble ble ble,

mars 25, 2005

Ég veit, það eru um það bil allir búnir að tjá sig um þetta og ég ætlaði ekki að gera það en ég get bara ekki orða bundist. Ég skammast mín. Ég skammast mín fyrir þjóðerni mitt. Í fyrsta skipti á ævinni. Ég gat auðveldlega hlegið að Keikó ævintýrinu og því öllu saman en þetta Fissjer dæmi er svo yfirgengilega hallærislegt og skammarlegt. Og að þurfa að horfa á þetta í alþjóðlegum fréttum og enginn skilur hvað Íslendingum gengur til. Afsakið mig meðan ég æli.

Annars er allt gott að frétta. Veðrið í dag er eins á Egilsstöðum og í Villeneuve les Maguelone. Fjórar vikur í áætlaðan lendingardag krílfríðar og tengdó í heimsókn (já frú tengdó, þú mátt nota borðtuskuna til að þurrka af borðinu). Og svo er mamma að koma eftir bara 10 daga. Ég hlakka svo til :):):)

blebleble

mars 14, 2005

Pikknikkið færðist á veröndina mína og strandferðin breyttist í langa gönguferð. Sem var alveg yndislegt. Ég var ekki alveg ein um þessa frábæru hugmynd að fara á ströndina. Það var hálfgert umferðaröngþveiti því svo virtist sem meirihluti stórMontpellierbúa hefði fengið sömu hugmynd. Og ströndin pakkfull af pakki ;) Hrúgur af börnum, hundum, gömlu fólki, ungu fólki, alls konar fólki og næstum allir að borða ís. Mikið gaman, mikið grín.

Einn af starfsfélögum Jonathans er hálfur Ameríkani, hálfur Kínverji, alinn upp í portúgal og býr núna í Frakklandi. Ég get ekki tekið hann alvarlega og á alltaf bágt með mig að hlæja ekki þegar hann talar við mig því hann er alveg eins og Hlósigmáttvana, karakterinn hans Ladda (hefur meira að segja eins rödd og rosa fyndinn hreim. Berglind og Lindi, þið hljótið að vita hvaða karakter ég er að tala um.....

Og í lokin, hver fór með þessa spöku vísu?
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur.
Súkkulaði út um allt
nið'r úr kistu lekur.

Ble ble ble

mars 13, 2005

Mmmm, ég er farin í pikknikk. Sorprit og snarl og mjúkt teppi til að liggja á á ströndinni. Samt aðeins of snemmt fyrir bikini en alveg ljómandi hlýrabolaveður. Hver nennir með?

P.s. ég hata beinhimnubólgu. Grrrrr.

Ble ble ble

mars 08, 2005

Hjálpi mér. Blogg tvo daga í röð. Ég lofa að það gerist aldrei aldrei aftur ;)

Annars er þetta bara smá bumbublogg og aðallega til að sýna ykkur nýju myndirnar af barninu og segja ykkur nýjustu fréttir af okkur báðum. Við erum við hina mestu hestaheilsu, mér líður ennþá alveg rosalega vel og finnst bara hvorki leiðinlegt né óþægilegt að nokkru leyti að vera með bumbu þó hún sé orðin stór og þvælist fyrir. Mér finnst þetta bara gaman :) Barnið er orðið 2.2 kíló og er áætluð fæðingastærð og þyngd 52 cm. og 3,8 kíló sem er bara nokkurnvegin í meðallagi miðað við íslensk börn en frönsku læknunum finnst þetta vera voðalega stórt. Nú styttist óðfluga í stóra daginn. Sex og hálf vika eftir fram að skráðum degi þannig að barnið gæti komið eftir fjórar til átta vikur :) Hlakka svooo til. Barnið er búið að skorða sig og svona þannig að það er þannig séð reddí. Og mamma kemur til mín eftir fjórar vikur :) Það verður svo gaman. Alltaf allt svo gaman :)

Myndir

Endilega skoðið myndirnar og segið mér hvort þið teljið þetta vera dreng eða stúlku...

Ble ble ble

mars 07, 2005

Þá er komið að þessu mánaðarlega. Þ.e. bloggi. Ekki alveg komið að hinu mánaðarlega ennþá en farið að styttast. Ég er ein heima og verð það í tvær vikur :( Jónatan er á námskeiðum í Reading að læra á nýtt Oracle gagnagrunnakerfi sem Dell er að fara að taka í notkun bráðum.

Mér varð litið út um eldhúsgluggann áðan og brá heldur betur í brún. Á götunni fyrir framan húsið skoppaði drengur, á að giska 12 ára með eldrautt hár og freknur. Hefði sem best getað verið Alexander Siggudísarson. Rauðhært fólk er nebblega mjög sjaldgæft hérna. Það er ekkert sérlega merkilegt að vera ljóshærður, heldur merkilegra að vera bláeygður en alveg allra merkilegast að vera rauðhærður með hvíta húð og freknur.

Mig minnir að fyrir margt löngu hafi ég spurt á þessari blessuðu síðu af hverju manni brygði í brún og ég man ekki hvort ég fékk einhver svör. Þess vegna ætla ég að spyrja aftur og ef einhver er svo fróður að vita það (eða nenninn að vilja fletta því upp) þá má sá hinn sami tjá sig í tjásuboxið hér fyrir neðan.

Ég er búin að smíða eitt stykki kommóðu og þrífa ofan af og innan úr eldhúsinnréttingu með kúluna út í loftið og tengdamóðið mín rambar á barmi taugaáfalls. Hvað hefur hún unnið til þess að hljóta svona ómeðfærilega tengdadóttur. Hlýtur að vera vont karma. Ég hef ekki enn lagst í bómullarbeðið sem hún vildi að ég hefðist við í á meðan á þessari meðgöngu stæði. Kannski ég ætti að redda mér einu slíku og geyma hana í því þegar hún er í heimsókn ;) Annars er hún er söm við sig. Kaupir og kaupir barnahúsgögn án þess að spyrja hvort við þurfum þau og hvernig við viljum hafa þau. Það er sjálfsagt vanþakklæti í mér en ég vildi samt gjarnan hafa eitthvað með það að segja hvernig húsgögn eru keypt þar sem ég þarf að búa með þetta dót í langan tíma. Mér datt í hug að kaupa handa henni sófasett og láta senda það heim til hennar. Gá hvað henni finnst um það ;) Hún er alveg met þessi kona. Alveg yndislegust að svo mörgu leyti en bara að dreeeeepast úr stjórnsemi og getur ekki hamið sig og það er svo fyndið (og stundum alveg rosalega pirrandi). Þetta er samt skiljanlegt af því að þangað til ég kom til sögunnar stjórnuðu þau foreldrarnir lífi Jonathans meira og minna og hann tók yfirleitt ekki ákvarðanir án þess að.... Ja, ég held hann hafi bara yfirleitt ekki tekið ákvarðanir. Fannst bara ágætt að einhver gerði það fyrir hann. Svo kemur einhver stjórnsöm frekja til sögunnar og þau fá ekki lengur að ráða neinu. Og allt í einu er litli drengurinn þeirra orðinn stór, kaupir sjálfur fötin sín og fer í klippingu þegar hann vill (og nb. velur klippinguna sjálfur) og gerir hluti án þess að hafa þau með í ráðum. Alveg handónýtt ;) Og hún er enn miður sín yfir nafnavali okkar og hringir reglulega eftir andvökunætur og leggur til hin og þessi nöfn sem henni finnast hæfa betur en það sem við höfum valið. Blessunin. Hún er fyndin. Og nóg er það um tengdamóður mína í bili. Gott að hún kann ekki íslensku ;)

Þá er þessu tengdamömmubloggi lokið og kveð í bili. Elska ykkur öll.

Ble ble ble,