ágúst 21, 2007

Emmessennið er komið í lag, a.m.k. þannig að allir kontaktarnir mínir eru komnir inn aftur. Ég veit hins vegar ekki hvort tölvan heldur áfram að skrá mig inn og út að vild, það verður að koma í ljós.

ágúst 20, 2007

Sjónvarpið okkar er steindautt. Kapútt. Hætt og farið og nennir ekki að vera með í svona asnalegu leikriti. Við eigum erfitt með að ákveða hvort við eigum að kaupa okkur stóran flatskjá til að hengja upp á vegg eða hvort við fáum okkur bara eitthvað á tíkall af íbei.

Msn-ið mitt gaf upp öndina einhverra hluta vegna. Nú er enginn eftir á vinalistanum mínum. Gamla msn-ið mitt hefur haft þann leiða ávana að skrá mig inn án þess að vera beðið um það og gert það svona bara þegar því hentar og virðist engin regla vera á því. Nú hefur nýji live messengerinn tekið upp á því að gera slíkt hið sama. Því hefur oft komið fyrir uppá síðkastið að einhver hefur verið að reyna að spjalla við mig þegar ég er alls ekki neins staðar nálægt tölvu og á ekkert að vera skráð inn. Ég biðst afsökunar á því. Má ég því biðja ykkur um að bæta mér við á msn-ið hjá ykkur eða senda mér netföng í tölvupósti eða í kommenti við færsluna. Netfangið mitt er sigurjonsdottir@hotmail.com

Kann einhver skýringu á svona hálfvitagangi í emmessenni???

Ble ble ble,

ágúst 18, 2007


Hann Þór Sebastían á afmæli í dag. Hann er eins árs, þessi litli kútur (3. mán. á myndinni). Til hamingju með afmælið elsku strákurinn okkar.





Við erum að fara í sumarfrí.
Túra lúra.
Við erum að fara í sumarfrí.
Túra lúra lei.

Fyrst verðum við hér í viku og svo verðum við hér í aðra.

Ble ble ble,

ágúst 17, 2007

Í dag raðaði ég upp á nýtt barnafræðibókunum sem við köllum sparibækur því það þarf að fara svo vel með þær og Þór má ekki skoða þær einn. Þegar Heiða sá að ég var búin að laga þær og raða þeim upp á nýtt sagði hún. Ohhh mamma, takk. Nú get ég loksins skoðað sparibækurnar aftur. Ég er svo spennt.

Þór er allur hinn æstasti í að labba og nær að labba óstuddur milli húsgagna. Þegar þetta tekst fylgir svo ótrúleg gleði að hann tryllist í fagnaðardansi og hoppum, svo mikið að hann dettur.

Þór og Heiða voru saman að stríplast áðan áður en þau fóru í bað. Svo prumpar annað þeirra hátt og mikið og þau lögðust bæði í gólfið í hláturskrampa. Það er greinilegt að húmor erfist.

Ble ble ble,

ágúst 14, 2007

Um daginn hækkaði hamingjustuðullinn í lífi mínu umtalsvert þegar ég fann risastóran stauk af season all kryddi úti í búð. Án þess hef ég þurft að elda í þrjú ár núna. Það er náttúrlega ekki hægt.

ágúst 13, 2007

Þrjár Heiðusögur

Í gær var hún að púsla stafrófspúslið. Hún er mjög dugleg að læra stafina en samt ekki alveg komin með þetta á hreint. Svo var hún að púsla Vaff og á því púsli er mynd af vasaljósi. Ég spurði hvaða stafur væri á myndinni og hún hugsaði sig um í svolitla stund og sagði svo "vas", mjög stolt af sjálfri sér. Greinilega búin að kveikja á því að fyrstu hljóðin í orðinu eru þau sömu eða svipuð og heitið á bókstafnum.

Í morgun var Jonathan að opna poka með morgunkorni en það mistókst eitthvað svo það fór morgunkorn út um allt. Þá kom Heiða inn: Nei nei pabbi minn. Pabbi kaufi. Pabbi rosa rosa kaufi með moggunkoddnið. Það má ekki geða hona. Skamm. Pabbi núna kaka til.

Heiða frænka kenndi litlu Heiðu að segja kjánaprik. Litlan segir Kjánapeeeeeek, alveg bullandi flámælt :)

Af Þór er helst í fréttum að hann er kominn með sex tennur og kýs nú frekar að labba meðfram heldur en að skríða ef það er í boði. Hann er búinn að taka fyrstu skrefin og verður trúlega ekki mjög langt í að hann fari að labba meira. Í fyrradag þegar hann vaknaði af lúrnum sínum þá heyrðist fyrst eitthvað uml og svo mamma. Svo beið hann í pínu stund. Þá heyrðist babba. Hvort hann var að segja pabbi eða ekki vitum við ekki alveg en þetta er alla vega í fyrsta skipti sem hann segir það.

Þau eru aðeins farin að leika sér saman og þá í feluleik eða eltingaleik og svo púsla þau saman. Þór réttir Heiðu þá eitt og eitt púsl og hún spyr hann hvaða mynd er á púslinu og setur það svo á réttan stað.

Af okkur er svo sem ekkert að frétta, bara allt gott. Jonathan vinnur og vinnur og ég heimila og heimila og hugsa um börnin og enginn tími til annars.

Beð að heilsa,
ble ble ble.