nóvember 29, 2003

Hei, gleymdi brandaranum maður...

Vitiði af hverju menn fíla konur í leðri?
Þær lykta eins og nýr bíll.

Múhahahaha

Við vorum að kaupa nýtt straujárn. Og ég fékk líka nýja skó. Jibbí. Gömlu skórnir mínir voru orðnir svo götóttir að það lá við að tærnar stæðu útúr.

Ég hlakka til að koma heim til Egilsstaða. Við lendum í hádeginu og pabbi ætlar að sækja okkur og fara með okkur beint í söluskálann svo Jólatan geti fundið lyktina af skötunni. Ekki ætla ég að neyða hann til að borða hana, ég borða hana ekki sjálf. Tíhí.

Við vorum eitthvað að ræða jólahefðir í skólanum um daginn og ég var að segja þeim frá skötunni og sagði eitthvað á þá leið: fiskurinn heitir skata. Grikkirnir sprungu úr hlátri og Svíarnir urðu voða hissa. Skata er nefnilega fuglstegund í Svíþjóð, fuglinn sem stelur gulli og gersemum en samt ekki kráka (gera krákur það ekki annars?) og skata þýðir skítur á grísku. Höfum ekki um það fleiri orð.

Veriði kát eins og slátur, mjúk eins og kúkar og hress eins og fress (svo vitnað sé í útskriftarræðu Hjalta Þorkells úr ME) Sjáumst síðar.

Ég fór í bíó í gær að sjá Kill Bill. Nýjasta sköpunarverk Tarantino's. Mér fannst þetta flott mynd. Svona pínu Crouching tiger, Hidden dragon wannabe en samt ekki. Nenni ekki að röfla um bíómynd. Þið getið bara séð hana. Ég mæli samt ekki með henni fyrir viðkvæmar sálir.

Í gær fór ég, alveg óvart, í gönguferð um stræti minninganna og hitti fullt af vinum mínum þar. Það var alveg frábært og tárin runnu úr augunum á mér. En ekki sorgartár heldur gleðitár yfir því hvað ég á frábæra vini. Það var nebblega þannig að ég hélt ég ætti Durham Town með Roger Witthaker á geisladisk og langaði að hlusta á það lag. Ég smellti Roger gamla á fóninn og settist í sófann með kaffið mitt. Roger Witthaker minnir mig alltaf á Heiðu Skúla og fellihýsisferðirnar okkar í gamla daga. Það var svo yndislegt. Kveikja varðeld í fjörunni, tína sveppi dag og nótt (með vasaljós að vopni), spila á spil, leika við hundinn, búa til munstur úr smartís eða m&m (ef við vorum með m&m þurftu m-in alltaf að snúa niður). Þessar ferðir okkar Heiðu eru með mínum allra bestu minningum. Það er svo gaman að rifja þær upp. Á miðjum disknum er svo lagið "If I were a rich man". Það minnti mig á fiðlarann á þakinu í uppfærslu LF og ég fór að rifja upp þá sýningu. Einar Rafn að leita að ostinum sínum og Sigga Lára mælti þá ódauðlegu setningu "ég fæ að ferðast með lest og bát". Þá fór ég að hugsa til allra vina minna sem hafa verið í hinum og þessum leikfélögum og hinum og þessum sýningum sem ég hef ýmist tekið þátt í eða bara notið þess að horfa á. Það kom að því að diskurinn endaði og ég setti útvarpið á og viti menn - enn eitt gullkorn hljómaði í eyru mín. Hver önnur en Barbra Streisand með "I am a woman in love". Ég, Ásta Gísla og Siggadís að búa okkur undir djammið og að spila eitthvað heimskulegt partýspil. Það var svo ótrúlega fyndið, ég hélt ég myndi pissa á mig af hlátri. Ég held að Ásta Gísla eigi myndir frá þessu kvöldi. Meiriháttar.

ÉG Á ÓTRÚLEGA HÆFILEIKARÍKA OG FRÁBÆRA VINI OG MÉR ÞYKIR SVO ÓENDANLEGA VÆNT UM YKKUR.

Ég hlakka til að hitta ykkur öll bráðum. Ef ekki um jólin þá pottþétt í febrúar.

nóvember 26, 2003

Jamm og jæja.

Ég bý í yndislegum . Hér er allt lítið og sætt og búðirnar eru svona eins og verslunarfélagið á Selásnum eða Ártún. Síðan er svo stutt í náttúruna. Strönd með sandi, fjara með steinum, rekaviði og skeljum, sjór, skógur, akrar. Við förum niður í fjöru og sækjum okkur rekavið til að brenna á arninum. Stutt að fara allt og stutt að fara í "menninguna" til Montpellier. Bara ef það væru ekki svona margir Frakkar hérna. Hei - og vitiði hvað? Hér er líka fullt af skrýtnum fuglum. Bleikir flamíngófuglar hundruðum saman. Um daginn þegar við vorum að keyra í vinnuna sáum við hóp af páfuglum. ÓÓÓtrúlega fallegar fjaðrir. Og síðast en ekki síst -tatarataddatamm - Strútar. Já, það er strútabúgarður hérna rétt hjá þannig að á túnunum vestan við þorpið er allt morandi í strútum. Þetta svæði er samt þekktast fyrir að framleiða Múskat-vín og hunang. Þannig að ef ykkur langar í hunangslegna strútasteik með múskatvíni þá er þetta staðurinn til að heimsækja (Anyone? Jón og Nanna???).

Annars er þetta í fréttum helst:

Það er ennþá gaman í skólanum þó mér finnist ég bara standa í stað núna. Við lærum svo margt nýtt á hverjum degi að ég næ engan vegin að festa það allt í hausnum á mér og mér hefur held ég ekki farið neitt fram í því að búa til setningar og svoleiðis. Ég hins vegar skil meira með hverjum deginum sem líður.

Það er brjálað að gera í vinnunni hjá Jólatani. Hann er "on call" í fjórar vikur núna sem þýðir einfaldlega að hann nær ekki að sofa mikið meira en 2-3 klukkutíma í einu. Sjálfsagt svipað og að vera með barn á brjósti... Síminn hans hringir látlaust og þá þarf hann að fara á fætur og vinna í einhverja stund og svo aftur í bælið og vona að hann fái að sofa í friði fram á morgun. Sem gerist eiginlega aldrei.

Jólaheimferðin er komin á hreint. Við komum til Íslands 22. desember, lendum í Keflavík kl. 16:00 og förum svo til Egilsstaða á þorláksmessu með hádegisvél. Við förum aftur 2. janúar Egst. - London.

Mig langar að baka jólasmákökur en ég bara kann ekki að baka í gasofni. Það verður allt einhvernvegin skrýtið sem ég baka. Hitinn kemur allur frá botninum á ofninum þannig að þegar ég baka brauð t.d. þá brúnast skorpan ekkert heldur verður botninn á brauðinu voða gullinn og fínn. Ætli ég verði að baka smákökurnar á hvolfi ;) ? Ég ætla alla vega að baka kryddbrauð á eftir og vona að það verði gott. Mig hefur langað í kryddbrauð í marga mánuði og núna er ég búin að finna uppskrift í boði þessarar hérna.

Bless í bili.

nóvember 22, 2003

One Johnny Wilkinsson, There's only one Johnny Wilkinsson. Og England er yfir á móti Ástralíu í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Rugby. Sumir eru alveg að fara yfir um af spenningi... Ég skil það vel. Ó hvað ég vildi að Ísland kæmist einhverntíman í úrslit á stórmóti sem þessu og tala nú ekki um ef Ísland myndi vinna. Ég held ég myndi gráta af geðshræringu í marga daga.

Annars eru Bretar hér almennt slegnir yfir sprengingunum í Tyrklandi og þó svo Tyrkland sé hálfgert barbaraland þá er það samt í Evrópu og ég held að Bretum finnist hættan nær þeim en áður. Maður sér það á fjölda lögreglu, her og öryggisvarða á almannafæri hvernig ástandið í heiminum er. Hér bregðast yfirvöld við öllum svona atburðum með því að auka sýnilega lög- og öryggisgæslu.

Annars var ég að tala um framtakssemi síðast þegar ég skrifaði. Ég fór nefnilega að hugsa um öll námskeiðin sem mig hefur langað til að fara á í gegn um tíðina og alla hlutina sem mig hefur langað til að læra en aldrei gert neitt í því.... To be continued

Verð að horfa á seinni hálfleik.

Come on England ;)

nóvember 14, 2003

Já og eitt annað. Sá sem tekur að sér að kenna Þórunni Grétu sjálfsaga og ósérhlífni má gjarnan koma við hjá mér líka og kenna mér framtakssemi. Meira um það síðar.

Góðan daginn

Mig langar til að þakka þeim sem fann upp vegastikurnar kærlega fyrir og hrósa vegagerð ríkisins fyrir hvað þjóðvegir á Íslandi eru vel merktir. Hér eru engar vegastikur og engin endurskinsmerki á vegbrúnum heldur svo þegar það er komið myrkur verður maður bara að reyna eftir bestu getu að muna hvar vegurinn er. Bílljósin lýsa nefnilega merkilega lítið upp og þegar það er traffík á móti sér maður ekki neitt því maður er blindaður af þeirra ljósum. Ég hafði ekki áttað mig á því hvað vegastikurnar skipta miklu máli. Allir að senda vegagerðinni þakkarjólakort í ár.

nóvember 13, 2003

Einhverntíman var einhver að velta fyrir sér hver Heitiég væri og hvað það þýddi. Ég veit ekki hvort einhver var búinn að gefa út skýringar á því en ég geri það alla vega hér með. Heitég er Heiða Skúla. Það nafn er komið til vegna þess að einn daginn þegar við vorum litlar og Heiða systir ennþá minni kom Skúladóttir heim til mín að leika. Heiða systir spurði hvað hún héti og Heiða Skúla svaraði náttúrlega Heiða. Þá sagði litla sæta barnið, ansi góð með sig - jaaaá, heitiég - hún gat nefnilega enganvegin skilið að tvær persónur gætu haft sama nafn. Og þaðan er Heitiég komið.

Gott að frétta héðan. Gott veður og skólinn er ágætur. Hitti íslenska konu í morgun sem kennir frönsku í skólanum mínum. Við ætlum að fá okkur kaffi eftir skóla á morgun.

Ég er búin að gera stórkostlega uppgötvun. Sendibréf þurfa ekki endilega að vera 100 blaðsíðna löng. Ég hef verið haldin þeirri ranghugmynd í mjööög mörg ár að það sé ekki hægt að skrifa bréf nema það sé á lengd við meðal bók og innihaldi lýsingu í smáatriðum á daglegu lífi manns. Því vara ég alla við. Nú hefjast bréfaskriftir ógurlegar og pósti tekur að rigna yfir Ísland. Það tekur mig nefnilega ekki lengur marga klukkutíma að skrifa eitt bréf. Nú get ég skrifað mörg bréf á klukkutíma ;)

Góðar stundir lesendur góðir.

nóvember 11, 2003

Ég er að fara niðrí fjöru að leita að rekaviði fyrir arininn okkar. Jibbíkóla.

nóvember 10, 2003

Hæ aftur

Kannski ég taki fram þar sem sumir föttuðu ekki linkinn á Þórunni Grétu hér til hliðar að það er linkur á Þórunni Grétu hér til hliðar.

Adios

Skólinn minn er lokaður í dag. Það er vegna þess að það er opinber frídagur á morgun og ekkert eðlilegra en að loka bara skólanum svo kennarar fái þægilegra helgarfrí. Undarlegt. Ég er hrædd um að fyrirtæki kæmust ekki upp með þetta heima. Og fyrst ég er byrjuð - Einstaklingar með lítil fyrirtæki. Hér er ennþá bakarí og slátrari á hverju götuhorni, tóbak og dagblöð er selt í sérstökum búðum og hér eru litlar "kaupmaðurinnáhorninu" búðir út um allt. Ef starfsfólkið eða eigendur vilja fara í frí þá er bara lokað. Það er ekki hægt að treysta á að maður geti alltaf farið í sama bakaríið klukkan 12 á þriðjudögum til að kaupa brauð. Kannski ákvað bakarinn að skella sér í skíðaferð til austurríkis með börn og buru (hvað er eiginlega þessi bura? vorum við einhverntíman búnar að komast til botns í því Ásta?) og þá lokar hann bara og límir óásjálegan blaðsnepil á stærð við frímerki á hurðina eða gluggann hjá sér og tilkynnir lokað til 1. desember. Svo er rigning og rok 5. desember og þá bara nennir bakarinn ekkert að opna bakaríið sitt því "það kemur hvort sem er örugglega enginn" og þeir sem nenna að koma berjast í veðrinu gegn rigningu og roki til að fara í uppáhalds bakaríið sitt til að kaupa uppáhalds brauðið sitt og koma að luktum dyrum. Þetta gera allir sem eru með lítil fyrirtæki. Bara opna og loka eftir hentisemi og er alveg sama um viðskiptavininn enda starfsfólk í þjónustustörfum í frakklandi ekki í vinnunni til að þjónusta viðskiptavininn. Viðskiptavinurinn á að vera þakklátur fyrir að einhver nenni að vera þarna og má bíða undirlútur þar til viðkomandi starfsmanni þóknast að líta upp úr blaðinu, hættir að blaðra í símann og skáskýtur augunum letilega til þín. Undarleg fyrirbæri Frakkar. Ég er ekki viss um að nokkur kæmist upp með að loka búðinni sinni eða sjoppunni svona eftir hentisemi heima á Íslandi. Hann myndi fljótt missa viðskiptin.

Jamm

nóvember 09, 2003

Nýtt vinablogg - Þórunn Gréta er komin í bloggandi manna tölu. Bjóðum hana velkomna með því að fara með bænina um hið heilaga blogg

nóvember 08, 2003

Já, gleymdi að segja að ódýrasti miðinn sem er í boði með Iceland Express er 80.000. Áðan var svo til flugmiði með gamla góða (?) Æslanderdottsíódottjúkei fyrir 67.000 (í allt fyrir okkur bæði) og ég dreif mig bara og bókaði það flug. Þannig að við lendum í Keflavík 22. desember klukkan 1600 að staðartíma. YYYEEEEESSSSSSSSS. (lesist með öskurhljóðum)

Annars gerðist eitt fyndið um daginn. Ég var að kenna Jónatani íslenska stafrófið og hann pissaði næstum á sig af hlátri þegar hann var að reyna að segja alla sérhljóðana og broddstafina rétt. Svo fór ég með stafrófið og hann hermdi eftir... A Bé Sé Dé E Eff Gé Há I Joð Joð? Ég heiti (hann kann sko líka að segja það) Joð ónatan. Ahahaha

Kannski var þetta ekkert svo fyndið eftir allt saman. Kannski varð maður að vera á staðnum til að þykja þetta fyndið. Kannski varð maður líka að vera ég til að finnast þetta svona fyndið... (Ég veit að Heiðu Skúla finnst þetta fyndið, hún er nebblega á sama (ó)þroskastigi og ég).
´
Að öðru, nú hafa bæst tvær litlar stúlkur í vinahópinn minn...

Til hamingju Óli Té

Amalía Ólafsdóttir, fædd 16. september

Til hamingju Solla og Daníel

Natalía Sól Daníelsdóttir, fædd 30. október

Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Hringl Já, ég verð að fara að fá mér hund eða kött.

Jamm. Við eigum líka flugmiða til Íslands. Við komum til landsins 22. desember og förum aftur 2. janúar. Við verðum allan tímann fyrir austan í þetta skipti. Þó getur verið að við förum ekki austur fyrr en að morgni 23. desember. Ég læt betur vita af því þegar nær dregur.´

Svo getur verið að ég komi til Íslands aftur í febrúar og þá til að stoppa í 3-5 vikur (og skrifa rrrritgerrrrð svo ég geti útskrifast einhverntíman og jafnvel vinna eitthvað fyrir pabba).

Lovjúol.

nóvember 06, 2003

Ókey - búin að bóka til London. Það kostaði 5.500 kall á mann fram og til baka. Samtals 11.000 kall þar. London-Keflavík. Það er sko ekki jafn mikið grín. 80.000 kall þar. Og svo flugið austur. 30.000 kall þar. Ég er að hugsa um að kaupa bara árabát á flóamarkaði og róa heim.

Ég er að fara að leita að flugi heim um jólin. Liggaliggalái.

nóvember 05, 2003

Hver er mesta svikakvendið í heiminum? Það er ég fyrir að lofa að blogga eins og vindurinn og blogga svo ekki neitt. En það er ástæða fyrir því. Ég var sko búin að skrifa ótrúlega langan pistil og ætlaði að fara að setja hann á bloggið mitt en þá allt í einu fann ég sjálfa mig (sjá komment frá sigguláru við síðustu færslu) og sjokkið var svo mikið að ég er bara búin að vera frá síðan. Ég vissi sko ekki að ég væri svona. Púff !!!

En annars að öllu gamni slepptu þá skal ég nú reyna að draga úr dratthalaganginum (ef það orð er til. Ef ekki - látið orðabók menningarsjóðs vita).

Annars er allt sæmilegt að frétta nema flensan ógurlega (betur þekkt sem talibanaflensan) hefur aftur stungið sér niður í Montpellier. Mér tókst að verða voða voða veik eftir Halloween og er búin að vera með á bilinu 39 - 40,5 stiga hita síðan. Ég hefði kannski ekki átt að fara út í kuldann klædd sem Dorothy úr garlakallinum í Ozzz. Í dag líður mér betur og er ekki með nema 38 stiga hita en meðal hnerrafjöldi á klukkustund er 20 (menntuð ágiskun :þ ). Megi hnerrum fara fjölgandi ef beinverkir dvína.

Það er ótrúlega mikið að gera í skólanum og það er ætlast til þess að við bæði vitum hluti og lærum ógisslega hratt. Og það sem er verst af öllu, við VERÐUM að mæta í skólann. Mæting og þátttaka í tímum gildir nebblega 60% af lokaeinkunn (sem er btw 12 ef maður fær fullt hús stiga). Alla vega, ég mæti í skólann (víst mæti ég í skólann Einsi) og finnst það gaman. Spurning hvort Helgi Ómar hefði átt að taka upp þessa reglu í menntaskóla. Ætli það hefði virkað eða orðið til þess að ég ynni ennþá í grænmetisdeild kaupfélags héraðsbúa? Aldrei að vita. Alla vega. Ég ætla mér að geta tekið þátt í einföldum samræðum á frönsku eftir 3 - 4 vikur. Júhú. Svo þarf Jónatan að fara að drífa sig af stað í íslenskunni svo hann geti sagt fáeinar setningar við ömmu um jólin.

Jóóólin jóóólin aaallsstaðar,
með jólagleði og gjafirnar
(syngi hver með sínu nefi)

Ég hlakka ótrúlega mikið til jólanna. Í fyrsta skipti síðan ég skildi við Þórarinn sem ég er í jólaskapi. Nú langar mig bara til að fara að föndra og sauma út og baka jólakökur og setja upp jólaskrautið mitt (sem er reyndar allt á Íslandi). Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til - börnin (og ég) fá þá eitthvað fallegt. Í það minnsta kerti og spil.

Látum þetta gott heita í bili. Best að tæma bloggbatteríin ekki alveg og reyna frekar að blogga aðeins oftar (roðn, koðn - og hún hverfur í skömmustuskýi).

Ég elska ykkur öll og sakna ykkar fallega fólksins míns heima svo ótrúlega mikið.